Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Í nýjasta tölublaði MAN er viðtal við hana um mataræði, hreyfingu, bætiefni, sem og bestu fötin og tækin í ræktina.
Ragga fjallar þar meðal annars um hvernig mataræðið og máltíðir hafa breyst hjá henni:
Það má segja Hvað, Hvernig, Hversu oft og Hversu mikið ég borða hafi breyst.
Ég var mjög brennd af allskonar boðum og bönnum mjög lengi. Fékk skilaboð um að borða ekki brauð, lamb, svín, maís, banana, og fleira rugl.
Nú borða ég allt sem að kjafti kemur og mér finnst gómsætt.
Máltíðamynstrið hefur breyst hjá mér. Á einhverju matarplani átti ég að borða margar smáar máltíðir yfir daginn og það hentar mér mjög illa. Ég verð frústreruð af einu epli og nokkrum möndlum. Ég vil borða mikið í einu, vera lengi að borða og verða vel södd. Svo ég borða mun sjaldnar yfir daginn en áður og mun stærri máltíðir í einu.
Heildarhitaeiningar dagsins skipta mestu máli. Þú getur fengið þær yfir daginn í einni stórri máltíð, tveimur eða sex máltíðum. Allt eftir hvað hentar hverjum og einum.
Ég borða líka mjöööög hægt og hef unnið mikið í því að hægja á mér undanfarin ár. Get verið allt upp í klukkutíma að borða eina máltíð. Sit mjög oft ein eftir að borða því allir í kringum mig eru löngu búnir að missa þolinmæðina og farnir frá borðinu.