fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024

Gerður hjá Blush.is ræðir um kynlífstæki, erfið sambandsslit og ástarlífið: „Við getum allavegana sagt að ég sé ekki að leitast eftir því að kynnast neinum“

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 12. janúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, betur þekkt sem Gerður í Blush stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki þegar hún var einungis tuttugu og eins árs gömul. Gerður réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur enda hefur hún alltaf verið ævintýragjörn og dreymin, en þegar kom að vali á fyrirtækjarekstri ákvað hún að stofna kynlífstækjaverslun.

Blush.is, kynlífstækjaverslun Gerðar, er nú orðin sjö ára gömul og á þeim stutta tíma sem liðið hefur síðan fyrirtækið varð til hefur mikið breyst hvað varðandi viðhorf Íslendinga til kynlífs. Umræðan hefur aldrei verið opnari og ekki er lengur feimnismál að ganga inn í kynlífstækjaverslun og kaupa tæki.

Margt hefur gengið á í lífi Gerðar síðan hún hóf rekstur sinn á fyrirtækinu og kom hún á fund blaðakonu á kaffihúsi í Kringlunni til þess að ræða um verslunina, Snapchat, erfið sambandsslit ásamt magabandsaðgerð sem hún fór nýlega í.

Ung móðir og atvinnulaus eftir fæðingarorlof

Upphafið á Blush.is var þannig að ég og vinkona mín, Rakel Ósk, fengum þá hugmynd að stofna fyrirtæki saman. Við vorum báðar búnar að vera í fæðingarorlofi, vorum atvinnulausar og langaði að prófa eitthvað nýtt. Við enduðum svo í kynlífstækjunum, sem er kannski svolítið sérstakt,

segir Gerður og hlær. Hún og Rakel Ósk fengu þá hugmynd að bjóða upp á ókeypis heimakynningar sem var nýbreytni á þessum tíma.

Þar sem ég var svo ung og átti engan pening þá fór ég til pabba og bað hann um hjálp. Ég man enn þá eftir því hvað ég var ótrúlega stressuð. Þetta er ekki beint þægilegasta umræðan til þess að eiga við pabba sinn, en ég spurði hann hvort hann gæti lánað mér pening og hann spurði mig auðvitað til hvers. Ég sagði honum að ég ætlaði mér að stofna fyrirtæki og hann spurði mig þá um hvers konar fyrirtæki væri að ræða og ég sagði honum að mig langaði til þess að opna kynlífstækjaverslun. Hann horfði á mig og beið í smá stund, svo sagði hann við mig að það væri nú margt vitlausara í heiminum heldur en það og lagði bara inn á reikninginn minn. Þannig að við getum þakkað pabba mínum fyrir það að Blush.is er til í dag,

segir Gerður kímin.

Gerður segir að reksturinn hafi að mestu gengið vel en af og til hafi komið tímabil þar sem ekki áraði vel.

Þetta hefur verið ótrúlegur skóli fyrir mig og ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í og ég segi stundum að ég sé mjög fullnægð í starfi,

segir Gerður og hlær.

Mynd: Sigtryggur Ari

Elskar að fræða fólk um kynlíf

Gerður stofnaði opinn Snapchat-aðgang undir nafninu blush.is fyrir tveimur og hálfu ári sem notið hefur gríðarlegra vinsælda. Mörg þúsund manns fylgjast með henni á hverjum degi.

Viðtökurnar voru eiginlega ótrúlegar. Það vissi engin hver Gerður í Blush var áður en ég opnaði snappið en í dag þegar ég er á almannafæri þá finnur ég alveg að fólk er að fylgjast með mér. Þetta er samt ótrúlega vinalegt og það mætti eiginlega segja að ég hafi eignast nýtt líf, því líf mitt er allt öðruvísi síðan ég fór að snappa. Það er einhvern veginn miklu opinberara.

Gerður tók þá ákvörðun að vera mjög persónuleg á snappinu sínu og vera ekki eingöngu að kynna vörurnar sem hún er að selja heldur einnig leyfa fólki að kynnast henni nánar.

Ég ræði við fólk um mína upplifun og fræði það sömuleiðis um ýmislegt tengt kynlífi eða kynlífstækjum. Ég reyni að hafa þetta eins persónulegt og smekklegt eins og ég get.

Gerður segir að lítið hafi borið á áreiti í gegnum Snapchat en hún hafi þó lent í því einstaka sinnum.

Ég hef fengið sendar typpamyndir og fæ stundum kannski einhver skilaboð sem eru óviðeigandi en það er mikill minnihluti sem sendir dónaleg eða leiðinleg skilaboð. Á hverjum degi fæ ég mörg falleg og jákvæð skilaboð sem hvetja mig til þess að halda áfram. Ég tek neikvæðu skilaboðin ekkert inn á mig enda velti ég mér ekki upp úr áliti annarra.

Ástarlífið eftir erfið sambandsslit

Fyrir rúmlega hálfu ári hættu Gerður og þáverandi kærasti hennar Niels saman eftir fjögurra ára fjarsamband.

Við vorum í sama geiranum, hann er líka að selja kynlífstæki og við erum bæði með netverslun. Við kynntumst á ráðstefnu úti í Þýskalandi og hann bjó í Hollandi og ég á Íslandi. Fjarsambandið var erfitt en jafnframt ótrúlega lærdómsríkt og jákvætt á marga vegu. Þetta var ótrúlega gott og fallegt samband á meðan það varði. Það var sameiginleg ákvörðun okkar að binda endi á sambandið og var hún ótrúlega erfið. Mér leið í marga mánuði eins og ég hefði misst ástvin þar sem við þurftum að slíta öllum samskiptum til þess að geta endað sambandið. Þannig að ég veit til dæmis ekkert hvað hann er að gera í dag og hef ekkert heyrt í honum síðan ákvörðunin var tekin. En ég sé ekki eftir henni og ég sakna hans ekki sem kærasta, en að sjálfsögðu eru minningar sem maður saknar. En nú er allt á uppleið og hefur verið í langan tíma. Ég er mjög hamingjusöm í dag.

Blaðakonu lék forvitni á að vita hvernig ástalífið gengi og hvort hún væri að fara á stefnumót með einhverjum sérstökum aðila.

Þetta er aðalspurningin sem ég fæ núna. Við getum allavega sagt að ég er ekki að leita eftir því að kynnast neinum. Ætli það sé ekki bara besta útskýringin.

Á svipuðum tíma og Gerður sleit sambandi sínu við Niels fór að bera á töluverðu þyngdartapi hjá henni og fóru fylgjendur hennar því fljótlega að forvitnast um það.

Ég hafði verið að þyngjast hægt og rólega síðustu árin. Alltaf að bæta á mig einu og einu auka kílói og ég fann ýmsar heilsufarsbreytingar hjá mér. Ég var orðin aum í hnjánum og mjöðmunum og bara almennt – svona eins og fylgir því þegar maður er orðinn of þungur – þannig að ég tók ákvörðun um að fara í magabandsaðgerð sem gekk ótrúlega vel.

Gerður segir marga spyrja hana hvort hún mæli með aðgerðinni fyrir þá en hún segist eiga erfitt með að svara þeirri spurningu.

Ég er ánægð með að hafa farið í þetta sjálf en ég hef heyrt alls konar sögur, bæði jákvæðar og neikvæðar, og það sem virkar vel fyrir mig virkar ekki endilega vel fyrir aðra og því er þetta virkilega persónuleg ákvörðun fyrir hvern og einn til þess að taka.

Gerður segir að hugsun hennar gagnvart mataræði hafi gjörbreyst eftir aðgerðina og að hún sé mikið meðvitaðri um það hvaða næringu hún setji ofan í sig.

Ég er bara miklu rólegri núna og hugsa meira um næringargildið en ekki hvort ég eigi að fá mér pítsu eða hamborgara.

Mynd: Sigtryggur Ari

Kynlíf er svo stór hluti af lífinu

Miklar breytingar hafa orðið á umræðu og umfjöllun um kynlíf og kynlífstæki síðustu ár og telur Gerður að þakka megi fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um hversu jákvæð breytingin hefur verið.

Það eru ekkert mörg ár síðan það fóru að koma greinar á vefmiðlum um kynlíf og þess háttar, þetta var svo mikið tabú. En í dag er mikið skrifað um þetta og þetta er orðið svo miklu miklu eðlilegra.

Þegar blaðakona spyr Gerði hvort henni finnist hún hafa átt þátt í breytingunum segir hún hiklaust já.

Já, ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég er búin að vinna ótrúlega mikið í að koma þessu í þá mynd að þetta sé eðlilegur hlutur. Þetta er svo ótrúlega stór partur í lífi okkar og er ein af grunnþörfum okkar.

En hver er framtíðin hjá Gerði?

Ég hef verið að hanna mína eigin vöru sem er að koma á markað, vonandi á fyrsta ársfjórðungi. Stefnan er svo bara að halda áfram að auka við mig þekkingu og halda áfram að fræða fólk í gegnum snappið. Það skiptir mig ótrúlega miklu máli að halda áfram að fræða fólk og auka þekkinguna og umræðuna enn frekar.

Blaðamaður forvitnast örlítið meira út í nýju vöruna sem Gerður hannaði og spyr hana hvort hún hafi prófað hana sjálf.

Já, þetta er vara fyrir konur, en ég er ekki að finna upp hjólið. Það eru til sambærilegar vörur á markaðnum en þrátt fyrir það er þetta fyrsta íslenska kynlífstækið og það er alltaf skemmtilegt. Ég hef prófað það og þetta er nýja uppáhaldstækið mitt. Ég vona að öðrum muni líka það einnig.

Viðtalið birtist upphaflega í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Andri framlengir í Garðabæ

Andri framlengir í Garðabæ
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.