fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024

Kynlífsþynnka

Ragnheiður Eiríksdóttir
Laugardaginn 8. september 2018 18:00

Ragnheiður Haralds og Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega er titill greinarinnar nýyrði, þó að höfundur hafi eflaust notað það nokkrum sinnum áður í texta. Orðið er nokkuð gegnsætt, eins og algengt er í tungumálinu okkar, það ættu flestir eldri en tvævetur að geta ímyndað sér við hvað er átt. Fyrirbærið „post-coital dysphoria“ sem vísar til depurðar, óyndis eða skyndisorgar innan tveggja tíma eftir samfarir, er ekki alveg það sama. Um það fyrirbæri hafa nokkrar rannsóknir verið birtar og nýjustu fréttir herma víst að karlar finni fyrir eftirsamfaraóyndi alveg eins og konur! Smám saman virðist kynvísindasamfélagið vera að gera sér grein fyrir því að karlar hafa líka tilfinningar. Húrra fyrir því.

En aftur að kynlífsþynnkunni. Hugtakið læddist að mér einhverju sinni þegar ég var að hugsa eða skrifa um fyrirbærin „sub-drop“ og „dom-drop“ sem eru vel þekkt í heimi þeirra sem stunda BDSM. Orðin vísa þar til depurðar og tómleika sem á það til að heltaka fólk eftir leiki sem innihalda til dæmis valdaskipti eða að sársauki sé gefinn og þeginn. Þó svo að allt fari fram með fullu samþykki þátttakenda hafa BDSM-iðkendur áttað sig á mikilvægi „aftercare“ – en með orðinu er átt við nánd, knús og sýnda umhyggju í kjölfar leiks. Ef látið er hjá líða að sinna þessum þætti er mun meiri hætta á að þátttakendur leiksins upplifi „drop“, hvort sem þeir hafa leikið hlutverk hins undirgefna eða hins drottnandi. Íslenska orðið sem mér datt í hug fyrir þetta er leikjaþynnka. Mismunandi er hvenær leikjaþynnkunnar verður vart, stundum strax eftir leik, en nokkrum dögum síðar hjá öðrum. Þess vegna er mikilvægt að huga að knúsi og nánd, og ekki síður samtali dagana eftir leik. Ég held að við getum yfirfært þetta á hvaða kynlíf sem er, og enn og aftur verður BDSM-heimurinn leiðandi í pælingum um velferð þátttakenda í kynlífi. Annað dæmi eru leiðarorð BDSM-fólks; öryggi, meðvitund og samþykki, sem að sjálfsögðu ættu að vera formerki alls kynlífs.

Hér kemur svo ein dæmisaga til glöggvunar:

Jón fór á barinn. Klæddur í sitt fínasta púss, sex vikur frá skilnaði og fullt tungl á lofti. Vinirnir sögðu að það væri löngu kominn tími á smá ríbánd hjá kallinum. „Bleeeessaður mahr, þú getur ekki lifað af í þurrki í allt haust. Komdu með okkur á Hressó og við finnum eina hlýja fyrir þig,“ sagði Gunnar vinnufélagi hans í kaffipásu á miðvikudegi. Jú, Jón var nú farinn að þrá kvenlega hlýju og snertingu, allt gekk vel með krakkana aðra hverja viku og gott ef fyrrverandi var ekki komin á Tinder. Tandurhreinar nærbuxur, átta gusur af uppáhaldsrakspíranum, og smokkur í vasann. Það var smá vandræðalegt að nálgast stelpurnar á barnum, enda langt síðan síðast, sambandið hafði jú varað í sex ár. Þetta kvöld valdi Jón að hífa upp sjálfstraustið með aðstoð áfengis – áhrifarík aðferð og mikið notuð á öldurhúsum landsins í áranna rás. Viti konur, hinum megin við barinn sá hann Guðrúnu, fyrrverandi samstarfskonu úr bankanum, standa eina síns liðs. Augu þeirra mættust og hann sá vel formaðar varir hennar mynda „hæ“ sem heyrðist þó ekki fyrir Cardi B sem einokaði hljóðheiminn á myrkum staðnum. Hann brosti breitt og fylgdist með hönd hennar taka utan um ískalt prosecco-glas, hönd sem eitt sinn fyrir mörgum, mörgum árum hafði tekið á svipaðan hátt utan um getnaðarlim hans í vinnuferð erlendis. Það skiptir svo engum togum að Jón mjakar sér gegnum iðandi þvöguna rakleitt upp að Guðrúnu og segir „hæ“ með varir sínar þétt við eyra hennar.

Skemmst er frá því að segja að með þeim urðu fagnaðarfundir sem enduðu með leigubílaferð í Grafarholtið heim til Guðrúnar þar sem þau nutust fram á morgun. Um hádegisbil vaknaði Jón með höfuðverk og eitthvað sem væri hægt að kalla andlátstilfinningu. Hann fór fram á bað og pissaði og nuddaði smá tannkremi á tennur og tungu til að losna við verstu andfýluna. Guðrún var svefndrukkin meðan þau skiptust á Facebook-prófílum og kvöddust. Hún fylgdi honum ekki til dyra.

Ný vinnuvika hófst og Jóni var eitthvað ómótt innan í sér. Guðrún hafði ekki brugðist við því að hann sendi henni blikkandi broskall á Messenger. Hann horfði út um gluggann á glerhýsinu sem hýsti skrifstofuna hans og mánudagurinn fyllti vitundina. Hann hreyfði varla við einni einustu tölu í Excel-skjali dagsins og lufsaðist um eins og draugur. Hann var lystarlaus um kvöldið og nennti ekki á billjardstofuna með vinum sínum – sú hugsun læddist að honum að líklega myndu þeir skemmta sér betur í fjarveru hans. Jón heyrði ekkert í Guðrúnu og hafði ekki burði í sér til að hafa samband sjálfur. Eftir tvo daga af tómleika var hann líka fullviss um að hún sæi stórkostlega eftir því að hafa sofið hjá honum, hann hefði líklega verið glataður elskhugi … En þetta leið hjá og á föstudegi var Jón orðinn eðlilegur á ný.

Guðrún var mjög bissí þessa viku. Henni hlýnaði í maga og grindarholi við að sjá broskallinn frá Jóni en hafði ekki tíma til að svara akkúrat þá. Hún var ánægð með nóttina sem þau eyddu saman og vonaðist virkilega til að það yrði framhald á. Hún eyddi fyrstu þremur dögum vikunnar á starfsdögum stofnunarinnar í Landmannalaugum – hópefli og alls konar vesen með afar litlu netsambandi. Á fimmtudegi kom hún aftur á skrifstofuna og nokkrir metrar af tölvupósti biðu svars – svo þurfti hún að fara með köttinn í sprautur í hádeginu. Á föstudegi settist hún niður með símann og áttaði sig loks á því að hún hefði aldrei svarað sæta broskallinum frá Jóni. Hún notaði tvo þumalfingur og pikkaði inn: „Hæ sæti. Takk fyrir frábæra nótt. Ertu með plön um helgina?“

 

Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir er hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi

Spurningar og tímapantanir: raggaeiriks@gmail.com

www.raggaeiriks.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Pálmi Þór lést af slysförum á Spáni

Pálmi Þór lést af slysförum á Spáni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Morata að skrifa undir hjá enn einu stórliðinu

Morata að skrifa undir hjá enn einu stórliðinu
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Romano segir Valgeir hafa samið í Þýskalandi

Romano segir Valgeir hafa samið í Þýskalandi
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.