Fyrir nokkrum árum, á erfiðum tímamótum í mínu lífi settist ég niður og fór að íhuga hvernig ég lifi mínu lífi. Og ég komst að því að ég gat vel gert ýmislegt til að bæta mín lífsgæði og annarra í kring um mig. Ég komst að því þegar ég fór í smá sjálfsskokðun, að ég átti það til að kvarta yfir ómerkilegum hlutum, hlutum sem skiptu hreinlega ekki neinu máli. Ég átti það til að vera neikvæð og ég átti það til að taka þátt í neikvæðum umræðum um aðra.
Ég komst að þeirri niðurstöðu, að það að vera neikvæður, sama á hvaða hátt það er, gerir engum gott. Hvorki mér né þeim sem standa mér næst. Og ég komst líka að því að það að vera neikvæður getur svo sannarlega smitað út frá sér. Það þarf ekki nema eitt lítið neikvætt orð til að koma öðrum úr jafnvægi og láta öðrum líða illa.
Eitt orð, sem ég hefði alveg getað sleppt því að segja.
Út frá þessu, fór ég að velta því fyrir mér, hvað ég gæti gert til að breyta þessu mynstri sem ég var svo sannarlega dottin í, eins og svo ansi margir, margir aðrir. Og það sem meira er, er að flestir gera sér bara alls ekki grein fyrir því að þeir séu með neikvæða nærveru, því að það er einmitt þannig sem það er, þegar fólk dettur í þá gryfju að tala meira og minna um neikvæða hluti í lífinu, og þegar fólk er farið að kvarta í staðinn fyrir að vera með uppbyggilega gagnrýni. Því að það getur svo sannarlega skipt máli hvernig maður orðar hlutina.
Dæmi:
Ég kem heim úr vinnunni eftir langa og erfiða vakt á Landspítalanum. Ég set lykilinn í skránna og opna hurðina, þegar ég stíg inn fyrir, þá er forstofan full af útiskóm og skólatöskum sem liggja út um allt gólf og ég þarf að klofa yfir öll herlegheitin. Eins og ég sagði, þá er ég í þessu dæmi að koma heim eftir langan og erfiðan vinnudag, og mín fyrstu viðbrögð eru að kalla inn til barnanna, pirruð á öllu „draslinu“ sem er „fyrir“ mér þegar ég kem inn: „AFHVERJU Í ÓSKÖPUNUM GETIÐ ÞIÐ EKKI RAÐAÐ SKÓNUM YKKAR!!!!“
Börnin, sem eru með vini sína hjá sér, og voru bara í alveg ljómandi góðu skapi áður en ég fór að garga yfir skónum í forstofunni, fara á einu augabragði í vörn og svara í sömu mynt til baka.
Hefði ég á einhvern hátt getað tæklað þetta öðruvísi?
Já, að sjálfsögðu. og það er meira að segja mjög einfalt.
Dæmi:
Ég kem heim úr vinnunni eftir langa og erfiða vakt á Landspítalanum. Ég set lykilinn í skránna og opna hurðina, þegar ég stíg inn fyrir, þá er forstofan full af útiskóm og skólatöskum sem liggja út um allt gólf og ég þarf að klofa yfir öll herlegheitin.
Ég stoppa aðeins og staldra við. Hugsa, „Vá, hvað það er frábært að börnin mín eiga vini sem vilja koma heim til okkar eftir skóla.“ Ég raða skónum í forstofunni og tek töskurnar úr gangveginum. Ég fer inn til barnanna, heilsa og læt þau að sjá að ég er komin heim og segi jafnvel „“mikið er gott að sjá ykkur, ég átti svo erfiðan dag í vinnunni og er svo glöð að vera komin heim. En það væri kannski betra næst, ef þið mynduð raða skónum ykkar og passa að töskurnar ykkar liggi ekki í gangveginum á forstofunni á daginn.“
Næst þegar börnin koma heim með vinina eftir skóla, munu þau að öllum líkindum taka tillit til þess sem ég sagði síðast og raða skónum sínum.
Því að það er einmitt þannig að ef þú ræðir við börnin þín (og aðra) á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, þá bera þau meiri virðingu fyrir þér og það eru mun meiri líkur á að þú fáir jákvæð viðbrögð til baka.
Þetta er bara eitt dæmi um það hvernig maður getur orðað hlutina á jákvæðan hátt í stað þess að koma með neikvæðar athugasemdir sem gera ekkert nema að rífa niður. Það er alltaf hægt að orða hlutina á tvenna vegu, en oft þarf maður að hafa svolítið fyrir því að finna út úr því hvernig best sé að koma orðunum frá sér á jákvæðan hátt.
En já, fyrir fimm árum, þegar ég fór að líta lífið aðeins öðrum augum, þá komst ég að því að ég græði bara alls ekki neitt á því að vera með neikvæða hegðun. Það gerir mér í fyrsta lagi ekkert gott, það gerir þeim sem ég umgengst dagsdaglega ekkert gott, hvort sem það eru fjölskyldumeðlimir, samstarfsfólk, vinir eða bara ókunnugt fólk sem verður á vegi mínum í daglegu amstri.
Ég einsetti mér það, þegar ég tók þessa ákvörðun, að reyna að hrósa einhverjum einum á hverjum degi.
Bara eitt hrós á dag.
Stundum tókst það.
Stundum ekki.
En það var allavega byrjunin. Og smám saman fór það að detta í mínar föstu venjur og ég var farin að hrósa einhverjum daglega og stundum var það meira að segja ósjálfrátt hjá mér og ég tók ekki eftir því fyrr en eftir á.
Ég tók líka eftir því að þegar ég var að hrósa einhverjum sem varð á vegi mínum, þá vissi fólk ekki alveg hvernig það átti að taka hrósinu. Og fólk átti mun erfiðara með að taka við hrósi frá mér heldur en neikvæðum athugasemdum sem ég hafði áður stundum látið flakka.
Ég er samt ekki að tala um að ég hafi verið að stoppa fólk úti á miðri götu til að segja því að það hefði fallegt hár eða eitthvað þvíumlíkt. Nei, það þarf ekki að vera mikið. Það getur til dæmis bara verið að nefna það þegar þú færð góða þjónustu í búðinni eða hrósa kennara barnanna þinna fyrir eitthvað sem hann/hún hefur gert fyrir barnið. Hrós er hrós, sama hversu lítið eða stórt það er.
En þegar ég fór að reyna að vera jákvæðari, þá lenti ég líka oft í aðstæðum þar sem einhver var með neikvæða umræðu. Mér fannst það afar óþægilegt og ég tók meira og meira eftir því hversu fólki var það eðlislægt að tala illa um einhvern sem ekki var á staðnum. Og nota bene, þetta voru einmitt aðstæður sem ég hafði oft staðið sjálfa mig að í að taka þátt í.
Hvað gat ég gert í þessum aðstæðum. Ég var ekki tilbúin til að taka þátt í svona umræðum og þegar ég sat bara og hlustaði, þá fannst mér ég líka vera að taka þátt í þeim, jafnvel þó svo að ég segði ekki orð. Svo að það eina í stöðunni fyrir mig var, og er enn að þegar ég lendi í þessum aðstæðum, þá stend ég upp og geng í burtu. Það á aldrei rétt á sér að tala illa um einhvern sem ekki er á staðnum og getur ekki svarað fyrir sig. Ef þér finnst einhver hafa gert eitthvað á þinn hlut eða annarra í kring um þig, þá er lang best að tala við viðkomandi og fara yfir málin á uppbyggilegan hátt, ræða hlutina og finna viðeigandi lausnir í stað þess að tala um einhvern sem ekki er á staðnum. Því að aðeins þannig getur viðkomandi tekið á málunum og bætt sig.
En svo er það hin hliðin á þessu öllu saman.
En hún er sú að geta tekið á móti því þegar maður fær neikvætt viðmót frá einhverjum sem maður umgengst. Það getur verið mjög sárt að fá að heyra neikvæða hluti, annaðhvort um sjálfan sig eða aðra í kring um mann. Ég komst að því að fyrir mig virkaði best að hugsa með mér þegar einhver var á einhvern hátt óréttlátur í minn garð eða ef fólk gerði eitthvað á minn hlut, þá hugsaði ég með sjálfri mér:
„Æ, þessi einstaklingur á greinilega mjög slæman dag í dag, honum/henni líður greinilega ekki vel og hefur ákveðið að láta það bitna á mér, því að ég einfaldlega lá vel við höggi.“
Svona hugsa ég það enn í dag, ef ég lendi í þessum aðstæðum. Því að þetta ER alveg örugglega nánast ALLTAF ástæðan fyrir því að fólk gefur frá sér neikvæða strauma.
Því líður einfaldlega ekki vel.
En eitt skal þó alveg vera á hreinu að það getur ENGINN, verið jákvæður og í góðu skapi ALLA daga. Það væri einfaldlega ekki eðlilegt ástand. Það eiga ALLIR sínu góðu daga og sína slæmu daga. En það sem skiptir máli er að láta það ekki bitna á öðrum. Hvort sem um ræðir fjölskyldumeðlimi, vini eða kassastarfsmann í matvöruversluninni sem þú ferð í.
Mín ósk er sú að allir myndu reyna að tileinka sér jákvætt viðhorf.
Að allir myndu reyna að hrósa í stað þess að kvarta yfir einhverju sem ekki skiptir máli.
Að allir myndu reyna að í stað þess að segja eitthvað neikvætt við aðra, að segja þá bara ekki neitt.
Og munum bara að það er sannað vísindalega að þeir sem taka á hlutunum með jákvæðni, eiga betra með að vinna úr hlutunum, þeir jafna sig oft betur eftir veikindi og lifa lengur.
“You only live once, but if you do it right, once is enough.”
― Mae West
Hægt er að fylgjast með Fríðu á Snapchat undir notandanafninu: fridabsandholt
Færslan birtist upphaflega á bloggsíðu Fríðu.