Alfa Jóhannsdóttir minnir á það í nýlegri stöðufærslu á Facebook að áfengi og börn fara ekki saman. Alfa starfar sem sérfræðingur í félagsmálum barna og verkefnastjóri innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hjá Akureyrarbæ og var tilefni stöðufærslunnar vera hennar á Fiskideginum á Dalvík í gær og segist hún hafa séð of mörg dæmi um það þar hvaða áhrif áfengisneysla foreldra hefur á börn þeirra.
„Það á ekki að vera samasem merki milli neinna athafna eða viðburða og þess að það sé allt í einu ókey að drekka sig fullan með börnunum sínum,“ segir hún og ítrekar að börn eigi rétt á öryggi, en upplifi mikið öryggi að sjá og upplifa foreldra sína drukkna.
Nefnir hún einnig að börn sem eru vön þessu athæfi hafi verið sett í aðstæður sem þau eigi aldrei að vera sett í og að áfengisneysla foreldra geti valdið kvíða og þunglyndi hjá börnunum.
„Verum fyrirmyndir en ekki hálfvitar,“ segir Alfa.
Svona er stöðufærslan í heild sinni:
Ég er búin að fara á nokkrar útihátíðir og í ferðalög í sumar. Þetta var allt sjúklega skemmtilegt og fáránlega gaman. Ég var í ólíkum hlutverkum samt, stundum bara fullorðinn einstaklingur að skemmta mér með vinum mínum og stundum fullorðinn einstaklingur að skemmta mér með börnunum mínum.
Því langar mig að minna á eitt: áfengi og börn fara aldrei saman.
Ekki bara einu sinni á ári, ekki bara spari, ekki bara á áramótunum, ekki bara á útihátíð eða ættarmóti, bara aldrei. Börn eiga rétt á að upplifa foreldra sína aldrei drukkna.
Börn eiga rétt á öryggi og það fylgir því mikið óöryggi að sjá og upplifa foreldra sína drukkna. Þau börn sem eru vön því, hafa verið sett í aðstæður sem þau eiga aldrei að vera sett í. Aðstæður sem hæfa ekki börnum. Örygginu hefur verið kippt undan þeim og ábyrgð lögð á þau sem þau eiga aldrei að þurfa að bera. Áfengisneysla foreldra getur valdið kvíða og þunglyndi hjá börnum.
Það á ekki að vera samasem merki milli neinna athafna eða viðburða og þess að það sé allt í einu ókey að drekka sig fullan með börnunum sínum.
Eg sá of mikið af svona dæmum í gær á Fiskideginum, og hef séð of mikið af svona dæmum í lífinu.
Þetta er ekki í lagi. Ef þú ert að lesa þetta og ert komin/n í vörn yfir svona hegðun hjá þér eða þínum þá er ekki of seint að snúa dæminu við og læra af reynslunni.
Börn eiga rétt á heilbrigðum samverustundum með fjölskyldunni og sú vísa er aldrei of oft kveðin að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Verum fyrirmyndir en ekki hálfvitar.