fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024

Samhugur og samstaða er styrkur í sorginni eftir andlát Einars Darra – Hálf tafla skildi milli lífs og dauða – „Við verðum að læra að lifa með sorginni, hvernig sem við gerum það“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 22. júlí 2018 20:30

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Darri Óskarsson lést á heimili sínu þann 25. maí síðastliðinn aðeins 18 ára gamall. Foreldrar hans, systkin, vinir og stórfjölskylda ákváðu stuttu eftir andlát Einars að halda minningu hans á lofti með stofnun minningarsjóðs, þar sem drifkrafturinn er kærleikur, samstaða og góðar minningar um ungan dreng sem fór allt of snemma. Ungan dreng sem lést af völdum lyfjaeitrunar vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Misnotkun á slíkum lyfjum ágerðist á tveimur seinustu vikum lífs hans og gat hann falið það fyrir sínum nánustu og kom andlát hans öllum í opna skjöldu.

Blaðamaður DV settist niður með föður Einars Darra, Óskari Vídalín, og Anítu Rún, 21 árs, dóttur Óskars og systur Einars Darra, og ræddi við þau um Einar Darra, misnotkunina á lyfseðilsskyldu lyfjunum, minningarsjóðinn og verkefnin sem eru fram undan og markmiðin sem þau vilja ná.

Ljósmynd: DV/Hanna

„Við fjölskyldan ákváðum fljótlega eftir að Einar deyr að stofna minningarsjóð, okkur langaði að halda minningunni um hann á lofti,“ segir Óskar. „Við gerðum okkur ekki grein fyrir hvert það myndi leiða okkur, en við vildum stofna sjóðinn. Við heyrðum líka mikið um andlát ungs fólks og vandamál tengd lyfjum eftir að hann dó, þannig að maður gerir sér grein fyrir hvað þetta er stórt og mikið vandamál, vandamál sem við höfðum enga hugmynd um áður en hann dó. Við fengum upplýsingar um misnotkun hans og fikt með lyf í gegnum farsímann hans þegar við skoðuðum hann. Það kom okkur öllum í opna skjöldu og þar af leiðandi ákváðum við að einbeita okkur að forvörnum og beina athyglinni að unga fólkinu og leggja áherslu á lyfseðilsskyld lyf. Það er eitthvað sem maður hefur ekki heyrt mikið talað um. Síðan kom hugmyndin að armböndunum upp og þau hafa slegið í gegn.“

Minningarsjóðurinn tekur á móti frjálsum framlögum og eru þau meðal annars notuð til að fjármagna armböndin, sem eru kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra. „Við viljum þannig auðvelda útbreiðslu þeirra og höfum hingað til ekki leitað eftir neinum styrkjum frá yfirvöldum,“ segir Óskar.

„Við ákváðum að gefa armböndin og það er í anda Einars, hann var svo kærleiksríkur og vildi gefa af sér til allra,“ segir Aníta. „Hann fylgir okkur í þessu verkefni finnst okkur,“ bætir Óskar við.

„Við ákváðum að vera áberandi, armböndin eru bleik, en bleikur var uppáhaldslitur Einars, við keyptum bleikar peysur og erum í þeim og erum mjög áberandi. Við erum búin að kynna verkefnið vel á Facebook-síðu minningarsjóðsins: af hverju við erum að gefa armböndin, hvert markmiðið er með þeim og opna umræðuna. Við höfum hringt í ansi marga aðila þar sem við erum að leita að samstarfi eða öðru og mjög margir vita hver við erum, hafa kíkt á síðuna og fylgst með. Það kemur manni töluvert á óvart,“ segir Óskar.

„Við erum líka á Instagram og þar eru ótrúlega margir að setja inn mynd af sér með armband. Mörg sem þakka okkur fyrir að gera þetta, því þau hafa ekki þorað því sjálf. Það er heldur ekki auðvelt fyrir okkur að koma fram með þessa sögu, en við teljum að Einar vilji að það sé okkar verkefni,“ segir Aníta.

„Já, ég held að hann sé mjög stoltur af okkur,“ segir Óskar.

Ljósmynd: DV/Hanna

Stefnan er næst tekin á Franska daga á Fáskrúðsfirði og Þjóðhátíð í Eyjum þar sem armböndum verður dreift. Einnig er hægt að fá þau á fjölmörgum pósthúsum, þar sem hópurinn annaði ekki eftirspurn í persónulegum skilaboðum eftir armböndum.

Minningarsjóðurinn gerði einnig myndband sem þegar þetta er skrifað hefur fengið 160 þúsund áhorf. „Við erum að nota alla miðla, við fáum hugmyndir og bara framkvæmum þær,“ segir Aníta.

Heimasíða er í vinnslu og er hugmyndin sú að þar verði nokkur svæði, til dæmis eitt fyrir foreldra þar sem þeir geta farið og fengið viðeigandi fræðslu. „Það er mikilvægt að foreldrar fái líka fræðslu. Okkur grunaði ekki að hann væri kominn í svona lyf,“ segir Aníta.

Bleika hjörðin mun verða áberandi í Reykjavíkurmaraþoninu

Reykjavíkurmaraþonið fer fram á Menningarnótt, þann 18. ágúst næstkomandi, og hefur minningarsjóðurinn stofnað hóp sem heitir Bleika hjörðin. Um 70 manns hafa þegar skráð sig til leiks og má búast við að þeir verði fleiri, enda tæpur mánuður til stefnu. „Flestir ætla að hlaupa 10 kílómetra, en eldra fólk eins og ömmurnar fara þrjá kílómetra,“ segir Aníta. Allir sem hlaupa fyrir minningarsjóðinn fá bleikan bol og allir styrkir fara inn á sjóðinn. „Við setjum markmiðið á að ná tveimur milljónum, allur peningurinn fer í forvarnarverkefni, við erum að vinna að fleiri verkefnum og erum bara rétt að byrja.“

Aðspurður hvort þau séu öll í formi fyrir hlaupið, brosir Óskar og svarar: „Mismiklu, við tökum einhverja spretti örugglega.“ Stefnan er þó sett á að vera saman í hlaupinu sem einn hópur, vera áberandi og vekja með því athygli á málefninu.

Ekkert gaf til kynna að Einar væri að misnota lyfseðilsskyld lyf

Aðspurð segja þau að ekkert hafi gefið til kynna að Einar væri væri að misnota lyfseðilsskyld lyf, hvað þá jafn mikið og síðustu tvær vikurnar í lífi hans, líkt og síðar kom í ljós. Hann var að klára annað ár í Fjölbraut á Akranesi og stundaði vinnu. „Það er allt öðruvísi neyslumynstur í dag, hann kom heim og það sást ekkert á honum, það var engin breyting á hegðun hans, krakkar eru farin að stjórna neyslunni þannig að lítið ber á henni heima,“ segir Óskar. „Einar var að vinna til klukkan ellefu kvöldið áður en hann dó. Það er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir að misnotkun á þessum lyfjum getur farið undir radarinn. Við viljum vinna forvarnarstarfið á faglegum nótum og erum með gott fólk með okkur, við höfum sjálf hvorki reynslu né þekkingu á slíkri vinnu,“ segir Óskar.

„Einar var litli bróðir minn, þroskaður miðað við aldur og besti vinur minn þrátt fyrir aldursmuninn. Hann fór í ræktina daglega, hafði alltaf tíma fyrir vinina, alltaf tíma fyrir fjölskylduna,“ segir Aníta. „Vikuna áður en hann dó var ég mikið heima og við horfðum mikið á myndir saman. Það var allt mjög eðlilegt, hann talaði við okkur, hann var mjög opinn. Hann var haldinn heilsukvíða og mjög opinn um það, hann talaði bara endalaust, maður sá ekkert breytast.“ Þau segja bæði að þegar þau hugsi til baka þá sé ekkert sem gaf til kynna hvenær hann byrjaði að neyta lyfjanna.

„Hann var tekinn fyrr á árinu á bíl og þá mældist kókaín í blóði hans. Eftir það var hann undir eftirliti hjá Báru, móður hans, teknar þvagprufur og slíkt og ekkert kom þar fram. Mér skilst að það sé ekki hægt að greina töflurnar í slíkum þvagprufum, þannig að hann fór í gegnum þær allar,“ segir Óskar. „Eins og kemur fram í símanum hans þá virðist misnotkunin á þessum efnum hafa aukist síðustu tvær vikurnar í lífi hans og hann talar um fráhvarfseinkenni sem eru víst mjög öflug,“ bætir Óskar við.

„Ég var mikið með honum þessar tvær vikur og get ekki sagt að ég hafi séð neitt á honum. Hann var mikið með okkur, var í prófum í skólanum, gekk mjög vel og var að vinna þannig að þetta var mikið áfall,“ segir Aníta.

„Þetta er líka forvitni, það er mikið talað um þessi lyf í tónlistinni sem krakkar hlusta á. Kannski er ég ekki svona forvitin, en hann heyrði eitthvert lag sem fjallaði um lyf og þurfti þá að vita allt um lyfið, síðan hefur forvitnin náð tökum á honum og hann ákveðið að prófa,“ segir Aníta.

„Hann var sjálfur í tónlist og var að semja tónlist og texta sem fjalla um þessi lyf. Maður var grandalaus um það og hélt að þetta myndi eldast af honum,“ segir Óskar. „Ég spurði hann hvort hann væri að syngja um sannleikann, hvort hann hugsaði svona í alvöru, en hann neitaði því, sagði að þetta væri í tísku og bara eitthvað sem strákar væru að syngja um í dag. Þetta er forvitni, fikt, fíkn. Við vitum ekki hvort hann hefði náð að snúa við blaðinu, hann fékk aldrei tækifæri til þess,“ segir Aníta.

Óskar segir það mestu ógnina við neyslu lyfjanna að ungmennin nái aldrei að leita sér hjálpar, þar sem ein tafla sé oft nóg til að skilja milli lífs og dauða.

„Þetta var hálf oxy-tafla sem hann tók kvöldið sem hann dó,“ segir Aníta.

Gleðidagur breyttist í einni svipan í sorgardag

Einar Darri bjó ásamt móður sinni og yngri bróður í Melasveit í Hvalfirði. Daginn sem hann lést var Aníta Rún að útskrifast sem stúdent. „Um það leyti sem hann var að deyja inni í herbergi vorum við hin að fara að taka okkur til. Þetta gerðist um morguninn hugsa ég, hann dó bara í svefni, það tók enginn eftir neinu fyrr en átti að vekja hann,“ segir Aníta.

„Ég var að koma upp eftir með móðurömmuna, um hádegisbilið,“ segir Óskar. Þegar þau beygðu inn í Melahverfið mættu þau sjúkrabílnum. „En við vitum ekkert hvað var í gangi fyrr en við komum að fyrir utan heimilið og sáum lögreglubílana. Ég fór á eftir sjúkrabílnum upp á Akranes og þegar ég kom þangað var læknir búinn að úrskurða hann látinn. Það sem átti að vera gleðidagur breyttist í sorgardag.“

Einar var vinmargur og segja feðginin að andlát hans hafi verið reiðarslag fyrir alla og eitthvað sem enginn bjóst við. Vinahópurinn sem og ættingjar séu í sárum. „Við höfum talað við þau öll og það standa allir saman og hjálpast að,“ segir Aníta, sem eftir andlát bróður síns ákvað að taka sér hlé frá frekara námi og vinna að minningarsjóðnum og verkefnum hans, en hún stefnir á að læra félagsráðgjöf.

„Markmið okkar með minningarsjóðnum er að opna umræðuna og að unga fólkið geri sér grein fyrir að neysla lyfja er lífshættuleg og að foreldrar geri sér grein fyrir að þetta geti verið að gerast heima hjá þeim,“ segir Aníta.

Minningarsjóðurinn er styrkur í sorgarferlinu

Þar sem þið farið í forvarnarverkefnið svo stuttu eftir andlát Einars, náið þið að syrgja eða eruð þið að slá sorgarferlinu á frest?

„Fyrir mitt leyti þá sæki ég mikinn styrk í að við, fjölskyldan, hittumst oft og enn meira eftir að við fórum að vinna með minningarsjóðinn,“ segir Óskar. „Það hjálpar mér mikið að hafa eitthvað fyrir stafni í sorgarferlinu, verkefni sem mér finnst verðugt og í minningu Einars. Ég er í sambandi við geðhjúkrunarfræðing og er að vinna í mínum málum með honum. Mér finnst stuðningurinn sem við fáum líka hjálpa mér afskaplega mikið, hann kemur mér á fætur á morgnana. Svo veit maður ekki hvað gerist þegar fer að hægja á, maður veit ekki hvernig morgundagurinn verður,“ segir Óskar.

„Þegar ég fékk símhringinguna um að Einar væri látinn, þá vissi ég að hann væri dáinn en var samt með þá hugsun að það kæmi ekkert fyrir okkur,“ segir Aníta. „Hann er vaknaður núna uppi á spítala, hugsaði ég, og ég hugsa það enn stundum í dag að þetta sé ekki alvara. Ég stend í kirkjugarðinum og horfi á krossinn hans og hugsa að þetta sé óraunverulegt, kannski af því að við finnum svo mikið fyrir honum.

Ég hugsa bara dag fyrir dag. Ég get átt slæman dag og þá passa ég bara að hugsa um sjálfa mig og leyfi mér að eiga slæman dag. Við ákváðum að vinna verkefnið í kærleika og ef við eigum slæman dag, þá erum við ekki að vinna að því. Það hjálpar mér mikið að hugsa til Einars, ég á bara góðar minningar um hann og þær hjálpa mér að syrgja hann. Svo erum við líka oft heima og grátum og þá leyfum við okkur bara að gráta.“

Óskar hefur upplifað að geta kvatt einstakling áður en viðkomandi féll frá. „Að jarða ungan dreng er eitthvað sem ég vil ekki að neinn upplifi. Við höfum fengið mikinn stuðning frá fjölda fólks sem við þekkjum ekkert og frá fjölskyldu og vinum, það er ómetanlegt. Maður er snortinn yfir viðbrögðunum og allir eru tilbúnir til að leggja sig af mörkum, það er bara frábært.

Sektarkenndin er hluti af ferlinu sem ég fer í gegnum eftir að Einar deyr. Sú tilfinning kom strax upp og er eitthvað sem maður verður að vinna með sjálfur. Ég get ímyndað mér að hún fari illa með fólk ef ekki er unnið með hana. Ég er opinn með að tala um hana. Að jarða barnið mitt er eitthvað sem ég hef ekki gert áður og maður verður bara að lifa í núinu, ég veit ekkert hvernig morgundagurinn verður. Við verðum að læra að lifa með þessu, hvernig sem það er gert,“ segir Óskar.

„Ég veit líka að alltaf þegar verður gleðidagur hjá mér, þá mun hann verða smá sorgardagur um leið,“ segir Aníta. „Eins og þegar ég gifti mig, eignast börn, ég hef alltaf séð Einar sem hluta af því. Ég mun gráta af því að hann er ekki með, en ég verð bara að leyfa því að gerast því ég mun alltaf sakna Einars. Ef ég loka alveg á sorgina þá er ég hrædd um að góðu minningarnar fari líka og ég vil frekar eiga slæma daga af og til, en að loka á minningarnar. Maður býst ekki við að einhver svona ungur muni deyja. Einar hafði samt misst góðan vin sinn fyrr á árinu vegna eiturlyfja en maður hugsar að það muni ekkert koma fyrir mig eða mína fjölskyldu.

Heiða, amma Andreu, systur Anítu og Einars, andaðist eftir stutt en erfið veikindi kvöldið eftir jarðarför Einars. Hún var náin Einari þrátt fyrir að vera ekki blóðskyld honum og náði að segja Báru, móður Einars og Andreu, stuttu áður en hún lést að hún ætlaði sér að fara og passa upp á Einar okkar. Það er gott að vita að þau séu þarna saman,“ segir Aníta.

Ljósmynd: DV/Hanna

Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er mjög algeng

Feðginin eru sammála um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum sé mjög algeng og orðin stórt vandamál. „Mjög margir sem ég hef talað við þekkja einhvern sem glímir við slíkt og hefur einhverja sögu að segja,“ segir Óskar, „það segir manni að þetta sé stórt vandamál. Eftir að við ákváðum að stofna minningarsjóðinn og fara þessa leið þá er ég óhræddur við að tala um andlát Einars, það hjálpar mér líka og er ekkert feimnismál hjá mér. Ég er tilbúinn til að fara ótroðnar slóðir til að vekja athygli á þeim vanda sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er, eins og til dæmis að sitja fyrir svörum í útvarpsviðtali, sem er eitthvað sem ég bjóst aldrei við að gera.“

Bæði segjast þau vera lítið fyrir sviðsljósið, en nú ávallt hugsa: „Hvað myndi Einar gera?“ Segja þau hann alltaf hafa hvatt aðra áfram til verka og það sé drifkrafturinn í verkefnum þeirra núna. „Við bara gerum þetta, það er ekkert hik á okkur,“ segir Óskar.

„Við viljum hafa áhrif í samfélaginu með því að opna umræðuna, og vonandi leiðir umræðan til breytinga hvað varðar forvarnarfræðslu í skólum og meðferðarúrræði. Ég hef spurt út í forvarnarfræðslu í framhaldsskólum og mér skilst að hún sé ekki mikil, þannig að þar er óplægður akur. Þegar maður tekur stökkið frá grunnskóla upp í framhaldsskóla, þá er það mikil breyting, þannig að ég tel að þar sé ákveðinn áhættuhópur og forvarnarfræðsla á öllum skólastigum því nauðsynleg,“ segir hann.

„Á fyrsta ári í fjölbraut fór ég í lífsleikniáfanga og þar var forvarnarfræðsla um of hraðan akstur og sláandi myndbönd sýnd,“ segir Aníta. „Þetta situr enn í mér þannig að ég myndi halda að sambærileg fræðsla um lyf hefði sömu áhrif,“ bætir hún við.

„Maður er ótrúlega þakklátur fyrir stuðninginn sem við höfum fengið, hann heldur manni gangandi og við efnið, hjálpar manni að komast á fætur á morgnana og líta daginn bjartari augum við að vinna að svona verðugu verkefni. Við hefðum aldrei getað þetta ein,“ segir Óskar.

„Við erum ótrúlega þakklát,“ segir Aníta, „og ef við náum að bjarga, þó ekki sé nema einum einstaklingi frá því að deyja vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja, þá er markmiði okkar náð.“

Hægt er að styrkja Bleiku hjörðina í Reykjavíkurmaraþoninu hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi