Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Í þessum fjallar hún um hitaeiningar og að líkaminn veit ekki hvaða dagur er.
Mánudag til laugardags fægirðu geislabauginn í mataræðinu. Þú heldur trygglyndi við kjúklinginn. Brún hrísgrjón í pottinum. Brokkolí gufusoðið. Salatið skorið.
Mælir hverja teskeið. Hver kaloría logguð í appið.
Svo rennur upp laugardagurinn langþráði.
Svindldagurinn. Nammidagurinn.
Dagurinn þar sem kaloríur telja ekki. Dagurinn þar sem allt er leyfilegt.
Með einbeittan brotavilja olnbogarðu þig í gegnum nammiganginn.
Vopnaður skóflu tætirðu í gegnum plastlokin skellast aftur og aftur.
Ofan í körfuna ratar Dórítós og Oreo. Sykrað kók og Spræt.
Kvöldið nálgast og kvíðahnúturinn stækkar. Verð að nýta þennan dag.
Pizza. Franskar. Mæjónesa.
Dórítópokinn tættur upp og skóflað í ginið með eðlu.
Þú skúbbar út Kjörísboxinu innst úr frystinum. Þetta sem var afgangs í matarboðinu um síðustu helgi.
Allt sem er ekki niðurneglt rennur niður vélindað.
Því á morgun hefjast leiðindin aftur. Einhæfnin á pari við færibandavinnu í hraðfrystihúsi.
Kjúklingur og brokkolí. Sætar kartöflur og salat. Hafragrautur og epli.
Heil vika í næsta laugardag. Sex dagar af þjáningu þar sem nammi er bannað. Sykur er Satans. Súkkulaði er afkvæmi djöfulsins.
Ef nammidagur virkar fyrir þig og þú ert að ná árangri, þá fyrir alla muni haltu þessu mynstri áfram.
Ef þú hinsvegar ert ekki að ná árangri getur hundurinn legið grafinn í kúnni í þessu kaloríuorgíu sem á sér stað þegar vinnuvikunni lýkur.
Ef þú vaknar eins og blöðruselur með samviskubit og eina spjörin sem passar yfir bjúgaða vömbina er joggingbrók af kallinum þá er spurning um að endurskoða þetta mynstur.
Hvort heldurðu að fari betur í skrokkinn?
700 grömm á einum degi?
Eða 100 grömm á dag í sjö daga?
Að gúffa 700 grömm á kortéri yfir Westworld.
Insúlínið keyrist upp í rjáfur. Blóðsykurinn hamast upp og niður eins og dansandi dauðadrukkinn unglingur á skólaballi.
Eða „njódda-livva-slaka“ með 50-100 grömm af litlu tríti á hverjum degi í 7 daga?
Þá sleppurðu við að baða þig í insúlíni, og rúlla um flökurt í blóðsykursrússíbana eins og fimm ára í Tivolí í Kaupmannahöfn.
Sama magn af sælgæti yfir vikuna.
Jafn margar hitaeiningar.
Líkaminn veit nefnilega ekki hvort það sé þriðjudagur eða laugardagur.
Hann veit bara hversu mikið þú borðar yfir daginn og yfir vikuna.
Ef þú býrð til 4000 hitaeininga þurrð yfir vikuna með mataræði og hreyfingu, en borðar þessar 4000 hitaeiningar föstudag til sunnudags í pizzu, sjeik og einni með öllu þá stendurðu í stað. Einföld menntaskólastærðfræði. Engin diffrun eða tegrun.