Hjónin Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir, eigendur Blind Raven veitingahússins í Vatnsholti, hafa leigt hús af Hrafni Gunnlaugssyni.
Um er að ræða umdeilt hús við Helluvatn, Elliðavatnsblett 3, sem deilur stóðu um á milli Hrafns og Orkuveitu Reykjavíkur.
Málið á sér aðdraganda 90 ár aftur í tímann, til dagsins 30. júní árið 1927, þegar landeigendur Elliðavatns seldu jörðina til Reykjavíkurborgar gegn vissum skilyrðum.
Dómur féll í máli Orkuveitunnar gegn Hrafni Gunnlaugssyni þann 14. júní 2016 þar sem segir í dómsorði: „Stefnanda, Hrafni Gunnlaugssyni, eru heimil afnot af lóðinni Elliðavatnsbletti 3 í eigu stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, í 15 ár talið frá uppkvaðningu þessa dóms. Rétturinn er bundinn við stefnanda og fellur niður að honum látnum.“
Ekki er búið að þinglýsa leigusamningi, en í símtali við blaðamann DV staðfestir Jóhann Helgi að hann hafi leigt þetta fallega hús til næstu 14 ára.