Við Óttar erum alltaf að reyna að finna okkur eitthvað annað að gera á kvöldin saman heldur en að horfa á sjónvarpið.
Áður en við eignuðumst börn þá vorum við bæði rosalega virk og alltaf að gera eitthvað. Það var því smá breyting þegar við vorum allt í einu komin með tvö ung börn og komumst lítið sem ekkert út nema með því að redda pössun.
Við erum því byrjuð að finna okkur eitthvað annað en sjónvarpsgláp að gera á kvöldin svona til þess að brjóta aðeins upp rútínuna.
Í gærkvöldi ákváðum við að baka. Okkur langaði bæði í venjulegt hvítt brauð og kryddbrauð.
Einfalt brauð með fetaosti
625 grömm hveiti
1 msk lyftiduft
500 ml mjólk
1 tsk salt
2 msk sykur
1/2 krukka fetaostur ásamt olíunni
Aðferð:
Byrjið á því að setja öll þurrefni saman og hræra vel. Setið því næst 2/3 af olíunni úr fetaostinum saman við ásamt mjólkinni og hnoðið saman. Smyrjið formið með restinni af olíunni og bætið að lokum fetaostinum ofan í brauðið og hrærið varlega.
Bakið við 200°c í 40-50 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullinbrúnt ofaná.
Kryddbrauð:
3 dl hveiti
3 dl haframjöl (gott að setja það í matvinnsluvél en ekki nauðsynlegt)
3 dl sykur
3 dl mjólk
2 tsk matarsódi
1 tsk negull
1 tsk kanill
Aðferð:
Blandið saman öllum þurrefni og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni varlega saman við og passiði vel að hræra allan tímann svo engir kekkir myndist. Bakið í ofni við 200°c í um 50 mínútur eða þar til hnífsoddur kemur hreinn upp úr miðju brauðsins.
Uppskriftin birtist upphaflega á síðunni Fagurkerar.is