Leikarinn, leikstjórinn og handritshöfundurinn Jóhann G. Jóhannsson hefur leikið jafnt á sviði, sem í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Á meðal nýjustu verka hans eru Rig45, Víti í Vestmannaeyjum og Icelandic Sagas – The Greatest Hits, sem sýnd er í Hörpu.
DV heyrði í eiginkonu Jóa, Guðrúnu Kaldal, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar í Reykjavík og spurði: Hvað segir eiginkonan um mann sinn?
„Jói minn er einstaklega gefandi og góð manneskja fyrir utan hvað hann er sætur. Jói er sérlega skemmtilegur og alltaf stutt í glens og grín og hann er oft með heilu leikþættina fyrir mig um hin hversdagslegustu málefni. Hann er frábær pabbi sem fylgir strákunum sínum vel eftir, styður þá og styrkir í lífsins ólgusjó. Við erum búin að vera saman í 22 ár og á þeim tíma búin að ferðast víða með strákunum okkar, Jóa og Krumma Kaldal. Jói skipuleggur alls konar ævintýri fyrir okkur og er frábær fararstjóri, víðlesinn og fróður um heiminn. Jói er sérlega góður kokkur og mjög flinkur að velja góða þætti á Netflix. Hann er besti jógafélaginn minn og frábær dansfélagi í gegnum lífið.“