Hafþór Júlíus Björnsson, betur þekktur sem Fjallið, birti ljósmynd af sér með kærustu sinni á Facebook- og Instagram-síðu en þar létu „nettröll“ í sér heyra og gerðu stólpagrín að hæðarmimuni parsins.
Hafþór er 2,05 metrar á hæð en kærasta hans, Kelsey Henson, er 1,57 á hæð.
Hér að neðan er brot af því sem ummælendur á Instagram hafa sagt:
„Ekki vissi ég að Disney væri að undirbúa nýja útgáfu af Fríðu og dýrinu“
„Heimsins sterkasti maður… og múffan hans“
„Aumingja konan!“
„Hann hlýtur að rífa hana í tvennt“
„Vasapíka“
„Ég vorkenni leghálsinum hennar“
Hafþór segir í samtali við Mirror að fólki finnist almennt gaman að vera með leiðindi á samfélagsmiðlum. „Enginn segir svona lagað við mig í eigin persónu eða hótar að vaða í mig, en það er mikið af hugrökku fólki þarna á netinu sem tjáir sig,“ mælir hann og segir það daglegt að fólk hóti sér eða sýni netníð í gegnum Twitter eða Facebook. Hafþór segir að ekki sé um nettröll að ræða, heldur „stríðsfólk á netinu.“
Fyrr í mánuðinum stóð Hafþór uppi sem sigurvegari keppninnar um titilinn Heimsins sterkasti maður. Sú keppni fór fram í Manilla á Fliippseyjum og var þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur vann keppnina síðan árið 1996, þegar Magnús Ver hlaut sama titil þriðja árið sitt í röð.
Hafþór segist almennt ekki taka niðrandi ummæli nærri sér vegna þess að hann vill einbeita sér að hinu jákvæða og veltir fyrir sér hvar fólk er statt í lífinu sem einblínir á hið neikvæða á samfélagsmiðlum. „Ég er sterkasti maður heims. Hverju hafa þau afrekað?“