Gunnar Smári Helgason er oft nefndur Hljóðmaður Íslands, en hann hefur starfað sem hljóðmaður í fjölda ára og er vel þekktur í bransanum. Þann 20. maí síðastliðinn gengu hann og unnusta hans, ljósmyndarinn Kristín Sigurjónsdóttir í hjónaband, en sama dag átti Siglufjörður 100 ára afmæli.
Heiðurshjónin búa einmitt á Siglufirði og eiga og reka saman útvarpstöðina FM Trölla og fréttavefinn trolli.is.
Athöfnin fór fram í Siglufjarðarkirkju, séra Sigurður Ægisson gaf parið saman og svaramenn voru Brynja Baldursdóttir og Ægir Bergsson.
„Það kom mér algjörlega á óvart þegar kórstjórinn, Elías Þorvaldsson, byrjaði að spila það sem ég hélt að væri forspil fyrir næsta lag Karlakórsins í Fjallabyggð, en reyndist vera BRÚÐARMARSINN!! Gestir stóðu upp og klöppuðu fyrir okkur, sem var ólýsanlegt, ég roðnaði eins og jólaepli ( sem gerist mjög sjaldan ) og í framhaldinu kom fólk í löngum röðum til að taka í spaðann á okkur og óska til hamingju,“ sagði Gunnar Smári á Facebooksíðu sinni.