Söngkonan Helga Möller hefur sungið sig í hug og hjörtu þjóðarinnar í áraraðir og var fyrst Íslendinga til að keppa í Eurovision sem hluti af ICY-hópnum. DV heyrði í dóttur Helgu, Elísabetu Ormslev, og spurði: Hvað segir dóttirin um mömmu?
„Ég hef alltaf litið á mömmu mína sem algjört ljós og ég held að flestir sem verða á hennar vegi geti sagt slíkt hið sama. Hún er hjartahlýtt sjarmatröll með algjöran aulahúmor sem verður reyndar alltaf betri með árunum. Eða kannski er minn húmor að verða lélegri. Hún er mikil tilfinningavera og er algjörlega með hjartað á erminni. Hennar helsti galli er hvað hún er þrjósk og þver en hennar helsti kostur er að hún jafnar sig fljótt á nánast hverju sem er. Hún er með besta og hlýjasta knús og bjartasta bros veraldar og hún er besta mamma sem ég hef átt.“