Stórstjarnan Adele fagnaði þrítugsafmæli sínu um helgina og ákvað að halda veisluna með Titanic-þema þar sem öllu var tjaldað til.
Söngkonan var klædd sem persóna Kate Winslet úr kvikmyndinni og dansaði hún dátt allt kvöldið ásamt stórum hópi gesta sem komu margir hverjir klæddir í björgunarvestum eða öðru í stíl við þemað. Á meðal gesta veislunnar voru Alan Carr, Zane Lowe og Breaking Bad-leikarinn Aaron Paul.
Adele birti í gær ljósmyndir úr veislunni á Instagram-síðunni sinni og útskýrði að þemað væri til þess að halda upp á bæði stórafmælið og skipuleggja partí í stíl við eina af hennar uppáhalds bíómyndum.
Hins vegar var ekki öllum skemmt yfir ljósmyndunum sem hún birti, né þemanu, enda þótti sumum það ósmekklegt að skipuleggja veislu sem vísar í harmleik þegar yfir fimmtán hundruð manns létu lífið í jómfrúarsiglingu skipsins sem sökk árið 1912. Leið ekki á löngu þangað til að fóru að streyma hvassar athugasemdir til söngkonunnar á bæði Instagram og Twitter.
Hér að neðan má sjá nokkrar ljósmyndir úr veislunni sem fóru fyrir brjóstið á mörgum.