Förðunarmeistarinn Margrét R. Jónasar brá sér nýlega til Bretlands á námskeið hjá Ellie Gills. Þar lærði Margrét meira um náttúrulegar snyrtivörur og fleira því tengt. Námskeiðið var haldið í A.S. Apotheracy jurtaapóteki sem er rétt fyrir utan London.
Margrét, sem á vefverslanirnar Mstore og Reykjavík Bitch & Co, er uppfull af fróðleik fyrir þá sem aðhyllast náttúrulegar „cruelty free“ og vegan snyrtivörur. Í sumar hyggst hún síðan bjóða upp á námskeið í náttúrulegri fegurð, af hverju við ættum að velja náttúrulegar snyrtivörur í stað þessara hefðbundnu. Hún fer yfir innihald í snyrtivörum, góðar og nærandi jurtir, bætiefni, húðumhirðu, andlitsnudd og svo síðast en ekki síst förðun og ráð um hvernig er hægt að gera fallega förðun á einfaldan hátt.