Innkaupatöskurnar, sem eru í boði í verslunum á Granda og í Nóatúni 17, eru gerðar af konum úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda. Þær hittast vikulega í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd, sauma saman fjölnota innkaupatöskur og grænmetispoka og borða saman hádegismat.
Verkefnið ber nafnið „Töskur með tilgang“ og keypti Krónan 700 innkaupatöskur.
Fatagámar Hjálpræðishersins eru staðsettir fyrir utan flestar verslanir Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu og hafa viðskiptavinir gefið mörg tonn af fatnaði í fatagámana. Fatnaðurinn hefur bæði verið endurnýttur hérlendis og hefur verið sendur erlendis til frekari endurnýtingar.
Það eru því góðar líkur á að stuttermabolurinn þinn (eða önnur flík) sem fór í fatagáminn, hafi öðlast nýtt hlutverk sem innkaupataska í Krónunni.