Aðdáendur Khloe Kardashian hafa fylkt sér á bak við stjörnuna eftir að það spurðist út að kærasti hennar, körfuboltakappinn Tristan Thompson, hefði haldið ítrekað framhjá henni.
Khloe og Tristan eiga von á barni saman en þau hafa verið saman síðan árið 2016.
Tristan, sem er 27 ára, spilar með Cleveland Cavaliers í bandarísku NBA-deildinni. Hann lék með liði sínu í gærkvöldi gegn New York Knicks þar sem áhorfendur bauluðu á hann vegna fréttanna.
Allt snýst þetta um fréttir af framhjáhaldi Thompson en hann er sagður hafa haldið framhjá Kardashian með fleiri en einni konu. Hann sást kyssa konuá skemmtistað í New York um helgina. Síðar um kvöldið sást hann fara með umræddri konu, sem sögð er 28 ára, á Four Seasons-hótelið sem hann dvaldi á. Þau sáust svo yfirgefa hótelið saman á sunnudag.
Önnur kona steig nýlega fram og sagðist hafa átt í ástarsambandi með Tristan. Gekk hún svo langt að segja að hún væri ólétt og barnið væri mögulega Tristans. Þessar fréttir hafa ekki fallið vel í kramið hjá aðdáendum Khloe enda er hún komin tæplega níu mánuði á leið.
Þúsundir aðdáenda Khloe hafa sent Tristan skilaboð á Twitter þar sem fúkyrðum hefur rignt yfir hann. Hefur honum meðal annars verið hótað lífláti og verið sagður hataðasti maður Bandaríkjanna.