Stórbruninn í húsnæði Geymslur.is og Icewear fór líklega ekki fram hjá neinum í gær. Mikið af fólki og fyrirtækjum var með búslóð sína eða vörur í geymslu og bíður nú í örvæntingu eftir því að fá upplýsingar um stöðu eigna þeirra.
Dýrahjálp er meðal þeirra sem áttu mikið af eignum sem lágu í geymslunum og ljóst er að tjónið var gríðarlegt og leita þau því til almennings í þeirri von um að einhver geti aðstoðað þau í þessum leiðinlegu aðstæðum.
Við fáum ekkert að nálgast neitt strax en það virðist sem þakið á húsinu sé farið þar sem okkar geymslur voru þannig að það getur ekki verið að neitt hafi bjargast,
segir Elsa Finnsdóttir sjálfboðaliði Dýrahjálpar í samtali við Bleikt.is
Nær allar eignir Dýrahjálpar hafa verið geymdar þarna síðustu ár; búr, bæli, fóður, ólar, kattaklósett, kattasandur og óendanlega mikið af dóti sem okkur hefur verið gefið í gegnum árin. Allt sem er nauðsynlegt til þess að við getum sinnt starfi okkar.
Dýrahjálp hefur verið í samskiptum við Geymslur.is til þess að reyna að finna aðra aðstöðu fyrir þau og er það í vinnslu.
Þangað til að úr því verður leyst munum við geta tekið við gjöfum hjá vinum okkar í Gæludýr.is á Smáratorgi.
Ef einhver sér sér fært að hjálpa þeim er hér listi yfir þá hluti sem voru í geymslunni og Dýrahjálp þarf að endurnýja.
Listinn er ekki tæmandi, ef þið eigið eitthvað af þessu og megið missa þá er allt vel þegið.
– Hunda og kattabúr (allar stærðir og bæði plast- og grindabúr)
– Hunda og kattabæli (allar stærðir)
– Hundabeisli, ólar og taumar (allar stærðir)
– Fóður fyrir hunda, ketti og kanínur (og nammi)
– Nagbein fyrir hunda
– Hunda og kattaleikföng
– Örmerkjalesari
– Kattaólar og merkispjöld
– Kanínubúr
– Kattakassar
– Kattasandur
– Kattaklórur
– Matardallar
– Dýrasnyrtivörur (sjampó, næring, ofl)
– Burstar, greiður og klóaklippur
– Geymsluhillur og kommóður ásamt plastkössum og döllum til að flokka dótið sem við eigum
– Kynningardót (dúkar, fjáröflunardót, bolir fyrir starfsmenn, pennar, mittistöskur, tjaldstólar, merkispjöld ofl)
Fyrir utan allt á listanum þá brann einnig allur söluvarningur Dýrahjálpar, svo sem dagatöl, jólakort, keramik og fleira.
Einnig er hægt að styrkja starfið með því að leggja inn á:
Við höfum fengið bæði fallegar kveðjur og stuðning frá svo mörgum í dag að við erum ótrúlega snortinn og þakklát. Það er ómetanlegt að finna stuðninginn á svona tímum.