Sigurjón Þór Widnes Friðriksson greindist með eitlakrabbamein af gerðinni Hodgkins fyrir um tveimur vikum síðan. Ekki er vitað á hvaða stigi krabbameinið er eða hversu dreift það er um líkamann en Sigurjón og kærasta hans Guðlaug Stella Hafsteinsdóttir eru um þessar mundir stödd í Danmörku þar sem Sigurjón fer í jáeindaskanna þar sem enn er ekki boðið upp á slíkt á Íslandi.
„Við erum núna úti að Danmörku og hann er að fara í skannann í þessum töluðu orðum. Þá kemur í ljós hversu mikið meinið hefur dreift sér og hversu margar lyfjagjafir hann þarf að fara í. Við eigum að gera ráð fyrir allavegana ári í þessa meðferð,“
segir Guðlaug Stella í samtali við Bleikt.
Bæði Sigurjón og Guðlaug eru í námi og hafa þau því ekki fjárhagslega burði til þess að standa undir meðferðinni. Tryggingastofnun greiddi ekki nema annan farmiðann fyrir þau til Danmerkur og í kjölfar niðurstaðna úr jáeindaskannanum mun bætast við mikill kostnaður vegna lyfjameðferðar og mögulega geislameðferðar.
„Við erum bæði í skóla og áttum að fara á samning þar sem við fáum nema laun í sumar. Ég fer á minn samning sem snyrtifræðinemi en hann þarf að bíða með sinn samning þar til hann hefur náð sér.“
Sigurjón er fæddur árið 1985 og er því mjög ungur og á allt lífið fram undan.
„Hann fer í smá aðgerð á föstudaginn þar sem settur verður lyfjabrunnur í hann svo hann geti fengið lyf við krabbameininu.“
Stofnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir Sigurjón fyrir þá sem sjá sér fært að styrkja þetta unga par í þessari erfiðu lífsreynslu:
Margt smátt gerir eitt stórt og skiptir hver króna máli.