Sigrún Ásta Brynjarsdóttir varð ólétt að dóttur sinni í júní árið 2016. Meðgangan gekk vel, dóttir þeirra stækkaði mikið og allt stefndi í að lífið yrði fullkomið fyrir þau hjónin.
Við maðurinn minn tókum ákvörðun í maí 2016 að okkur langaði að eignast barn eftir að hafa talað um það í nokkur ár að við ætluðum sko aldrei að eignast barn. Þann 1. júlí tek ég svo óléttupróf og það kemur blússandi jákvætt,
segir Sigrún Ásta í viðtali við Bleikt.is
Sigrún er nemi við Háskólann á Bifröst þar sem hún er að klára BS í viðskiptalögfræði.
Um kvöldið 28. febrúar árið 2017 átta ég mig á því að ég hef ekki fundið neinar hreyfingar af viti. Ég hringi í manninn minn og segi honum að ég vilji fara og láta athuga þetta.
Sigrún segist ekki hafa verið mjög áhyggjufull þar sem hún var viss um að hún væri örugglega með óþarfa áhyggjur.
En það kom í ljós að þessar áhyggjur áttu rétt á sér. Það fannst engin hjartsláttur og í staðin fyrir að eignast lítið kríli eignuðumst við lítinn engil. Það kom í ljós í fæðingunni sjálfri, sem gekk að flestu leyti mjög vel að hún hafði „bara“ flækt sig í naflastrengnum. Hún var fullkomin að öllu öðru leyti og þetta var bara slys, því miður.
Sigrún segir að sem betur fer séu fáir einstaklingar sem geta sett sig í spor þeirra og því á hún erfitt með að útskýra tilfinningarnar sem þau upplifðu.
Við vorum tóm, sár og reið en samt hamingjusöm og ástfangin, þetta var mjög skrítið. Það að ganga út af sjúkrahúsinu með tómt fangið og sofna án þess að þurfa að vakna aftur um nóttina var hræðilegt að öllu leyti. Okkur fannst við vera svikin, enda var framtíðin tekin frá okkur. Við vorum samt svo stolt af því að hafa eignast svona fallega og stóra stelpu og glöð með að hafa hvort annað. Það er að minnsta kosti enginn annar sem ég hefði viljað ganga í gegnum þetta með heldur en maðurinn minn.
Sigrún segir að það sé virkilega erfitt að vinna úr áfallinu sem þau lentu í og að hver og einn þurfi að finna sína eigin leið.
Við fundum hjálp frá hvoru öðru og fólkinu í kringum okkur. Það kom í ljós að við erum alls ekki þau fyrstu né þau síðustu sem lenda í svona missi og allir þeir sem hafa upplifað þetta eru tilbúnir til þess að hjálpa manni. Við leituðum til prests sem hjálpaði okkur líka mjög mikið. Við leituðum ekki hjálpar hjá fagmönnum þar sem við töldum að það myndi ekki henta okkur, en mæli samt hiklaust með því fyrir þá sem þurfa.
Sigrún og maðurinn hennar tóku ákvörðun um að reyna ekki strax að verða ólétt en rúmum 7 vikum eftir að dóttir þeirra fæddist andvana var Sigrún orðin ólétt aftur.
Það hjálpaði okkur mikið með að læra að lifa með því að hafa misst barnið okkar. Ég var skíthrædd alla meðgönguna og sérstaklega þegar leið á hana. Það er oft talað um að konur sem hafa misst fóstur eða börn séu hræddar þangað til tíminn sem missirinn átti sér stað er kominn og farinn, en það var ekki hægt í mínu tilfelli þar sem ég gekk heila meðgöngu áður en hún fæddist andvana.
Sigrún átti að fara í gangsetningu þegar hún var gengin 38 vikur en þegar hún var einungis gengin rúmlega 37 vikur þá fór hún í skoðun hjá ljósmóður.
Þá var barnið búið að losa sig úr höfuðstöðu og farið að snúa sér. Ég var í sónarnum klukkan 14 og var send í keisara eiginlega um leið. Hún fæddist svo rétt rúmlega hálf 19 það kvöld. Það gekk ekki að mænudeyfa mig og var ég því svæfð. Í keisaranum kom í ljós að ég er með hjartalaga leg sem veldur því að börn ná ekki að skorða sig almennilega. Ég vaknaði um tveimur klukkustundum síðar og var dóttir okkar sótt til pabba síns og ég fékk hana. Ég var mjög rugluð eftir svæfinguna og vissi því ekkert hvað var að gerast. Ég heyrði bara ljósmóðurina, sem tók á móti henni og eldri stelpunni, segja mér að það væri allt í lagi með hana. Hún væri fullkomin, alveg eins og systir sín. Ég áttaði mig ekki á því hvað hún var að tala um fyrr en ég var komin með hana í hendurnar og fattaði að hún væri fædd.
Nú eru liðnar tæpar 10 vikur síðan Sigrún eignaðist dóttur sína og segir hún allt ganga eins og í sögu.
Hún er fullkomin í alla staði. Þetta getur verið mjög erfitt þar sem ég hugsa mikið um systur hennar en sorgin er orðin allt öðruvísi eftir að hún fæddist. Ég lærði mjög mikið af því að hafa misst barn, en það sem stendur helst upp úr öllum lærdómnum er að lífið er ekki sjálfgefið. Hver einasti einstaklingur sem fæðist er algjört kraftaverk og maður á að vera þakklátur fyrir það. Ég lærði líka að ég á bestu fjölskylduna og vinina. Þau hafa staðið við bakið á okkur í gegnum allt.
Sigrún segir að í dag sé hún fyrst og fremst móðir og að allt sem hún geri, segi og hugsar endurspeglist í því.
Dætur mínar gáfu mér tilgang. Í öðru sæti er ég eiginkona, en maðurinn minn myndi samt segja að ég væri fyrst og fremst móðir og næst frekja, eða ákveðin eins og ég vil meina.
Segir Sigrún og slær á létta tóna.
Engin sorg er eins. Þótt ég upplifi eitthvað á einn veg þá þýðir það ekki að tilfinningar og upplifanir annara séu rangar. Það er til dæmis allt í lagi að gleðjast þrátt fyrir að lífið hafi tekið mjög krappa U – beygju. Allir hafa rétt á sínum tilfinningum.