Snædís Yrja Kristjánsdóttir gekk nýlega undir kynleiðréttingaraðgerð sem hún hefur beðið eftir í mörg ár.
Þegar maður er barn þá upplifir maður að kynið sem maður fékk sé ekki rétt. Ég gekk með þetta ein svolítið, en ég var samt alltaf í kjólum og háum skóm, átti bara stelpuvinkonur og lék mér með dúkkur. Ætli ég hafi ekki verið svona sex ára gömul þegar ég uppgötva þetta,
Segir Snædís Yrja í viðtali í þættinum Glimmerkokteillinn á Kjarnanum sem þær Anna og Tara Brekkan sjá um og taka fyrir ýmis tabú málefni.
Manni líður ekki vel og passar ekki alltaf inn, maður er bara settur í eitthvað ákveðið hlutverk. En maður getur samt ekki hafið ferlið fyrr en maður finnur þetta með sjálfum sér. Ég man að mamma spurði mig oft út í þetta en ég sagði alltaf bara nei við hana, að ég ætlaði ekki að tala um þetta.
Dag einn þegar Snædís var orðin 22 ára gömul gengur hún inn heima hjá foreldrum sínum og tilkynnti þeim að þau þyrftu að gjöra svo vel að finna nýtt nafn á hana.
Ég sagði þeim að þau þyrftu bara að gjöra svo vel að finna nýtt nafn á mig því ég ætlaði ekki að gera það. Mér fannst það ekki vera mitt verkefni. Mamma vildi vera svolítið ýkt og skýra mig Eldmey Yrja en pabba fannst það svolítið mikið. Þau fengu því að velja sitthvort nafnið og út kom Snædís Yrja.
Snædís segir að henni hafi þótt mikilvægt að leyfa foreldrum sínum að vera með frá upphafi.
Pabbi átti aðeins erfiðara með þetta heldur en mamma en mér þykir rosalega vænt um að hafa leyft þeim að vera hluti af þessu.
Snædís hélt upphaflega að hún væri samkynhneigð en hefur áttað sig á því í dag að líklega hafi hún einfaldlega ekki verið búin að viðurkenna þetta fyrir sjálfri sér.
Ég var alltaf með hárlengingar og neglur og hélt mjög lengi að ég væri bara samkynhneigð. En ég fer til geðlæknis þegar ég er 22 ára gömul og fer að tala við hann um þetta, að ég sé kannski transkona og hann var alveg sammála því. Ég klára þetta viðtal því bara þannig að þegar ég geng út er ég bara kona.
Rannsóknir hafa sýnt fram á það að fólk sem ákveði að fara í kynleiðréttinaraðgerð hætti við stuttu eftir ákvörðunina og því má ekki hefja ferlið fyrr en ári eftir að ákvörðun hefur verið tekin.
Ég skil það svo sem alveg og það truflaði mig ekki mikið. Það eins em má gera fyrsta árið er að breyta um nafn, en ekki á pappírum samt. Það truflaði mig samt sek ekki neitt, maður er náttúrulega búin að vera með sama nafnið á pappírum í mörg ár svo það skiptir engu máli að hafa það í eitt ár í viðbót.
Snædís hóf hins vegar strax laseraðgerð til þess að fjarlægja hár ásamt því að bóka sér tíma í brjóstastækkun.
Ég fékk mér brjóst eftir fimm mánuði og ég mátti það alveg. Ég átti mjög erfitt með að tala við stráka á þessum tíma því ég var ekki sátt við sjálfa mig. Hvernig átti ég að vera með manni ef ég elskaði ekki það sem var í klofinu á mér. Þannig að núna er í raun lífið mitt að byrja af því að ég er nýbúin í aðgerðinni.
Snædís viðurkennir að stuttu fyrir aðgerð hafi hún orðið mjög stressuð enda stór ákvörðun og margt sem getur komið upp á í svona stórum aðgerðum.
Þremur dögum fyrir aðgerð vaknaði ég mjög stressuð og ákvað að gúgla aðgerðina. Þá fann é einhverja tuttugu ára gamla mynd og ég varð mjög stressuð því þetta var ekki píkan sem ég ætlaði að vakna með.
Aðgerðin sem Snædís fór í átti að vera framkvæmd í tvennu lagi. Fyrst átti að útbúa leggöng hennar og síðar átti að laga allt hitt.
En í miðri aðgerð skiptu þau um skoðun og framkvæmdu hana alla í einu lagi. Svo vaknaði ég bara mjög hress og kát og var í skýjunum með þetta. Ég náttúrulega fríkaði alveg út af því að mig langaði svo að skoða en sem betur fer tók læknirinn myndir og ég fékk að skoða þær og ég var mjög sátt.
Þrátt fyrir að Snædís sé búin í aðgerð er ekki allri vinnunni lokið enn því hún þarf að passa vel upp á það að leggöng hennar lokist ekki.
Ég þarf að stafa þau í heilt ár, þetta er svona stafur sem lítur bara út ein sog dildó og ég þarf að setja hann inn þrisvar sinnum á dag í heilt ár.
Snædís fullyrðir að þrátt fyrir að hún myndi aldrei fá fullnægingu aftur þá myndi hún ekki fara til baka.
Þetta er 100 % þess virði og ég myndi aldrei fara til baka. En ég á samt að geta fengið fullnægingu, snípurinn er inn í leggöngunum.
Snædís segir að margt fólk haldi kannski að hún sé auðveld þegar kemur að samskiptum við hitt kynið.
Nei ég er ekkert auðveld, ég er ekkert að fara að hleypa hverjum sem er upp á mig.
Snædís finnst mikilvægt að hjálpa fólki og segir hún að allir megi hafa samband við hana ef þeim vantar hjálp varðandi þetta ferli.
Snædís hefur rosalega stór markmið í lífinu sem hún hefur tekið ákvörðun um að hún muni uppfylla.
Mig langar að eiga mitt eigið fyrirtæki, mig langar að eiga börn og mig langar í mann sem ber virðingu fyrir mér. Það væri líka gaman að koma aftur í viðtal þegar ég er búin að prófa hana, koma með góðar fréttir.
Hægt er að fylgjast með og hafa samband við Snædísi Yrju á Snapchat: snaedisyrja