Ég hef gengið í gegnum hinu ýmsu tímabil í lífinu, tekið hin ýmsu “phase” – góð og slæm (mitt uppáhalds er án efa 2006 emo/goth phase’ið mitt). En ég hef alltaf elskað að sjokkera fólk, vera öðruvísi.
Ég man hvað mér fannst frábært að standa úti með stóru gaddaólina mína í einhverjum fallhlífarbuxum með keðjum á og bókstaflega bíða eftir óþægilegum augngotum frá eldra fólki, eða þegar ég teiknaði í fyrsta skipti á mig fjólubláar augabrúnir (sem fylgdu mér svo í 3 ár og í dag teikna ég þær bara í stíl við hárið!).
Ég veit ekki hvað það er, ólýsanleg athyglissýki mögulega? Hvað sem það er þá er það bara stór partur af mér og verður held ég alltaf.
Ég lenti nýlega í því að vera í röð á kassa í Nettó og í röðinni við hliðin á mér er lítil stelpa, á aldur við Hólmgeir, og hún starir og starir og brosir alltaf svona feimnislega til mín. Þegar pabbi hennar tók eftir því hálf dró hann hana áfram og bað mig afsökunar á því að hún hafi verið að stara. Þó að uppáhaldið mitt sé án efa þegar lítil börn stoppa og stara.
Þegar börnin ykkar gera það, ekki biðja mig afsökunar, ekki segja þeim að gera þetta ekki. Þau eru forvitin, leyfið þeim að skoða. Þau eru hrifin af litunum, ég álasa þeim ekki.
Eins og margir á svipuðum stað og ég, hef ég alltaf haldið því fram að ég hafi orðið fyrir hafsjó af fordómum vegna þess hvernig ég lít út.
Ég hef oft fengið augngotur, skrýtnar spurningar út í götin mín, endalaust af spurningum þess eðlis hvort ég viti ekki að ég verði með þessi tattú að eilífu (nei ha? í alvörunni?). En eru þessar spurningar því fólk er með fordóma?
Eru þær ekki bara vegna þess að það er forvitið og þú sérð kannski ekki einhvern með gat í kinnunum, hanakamb og engar augabrúnir daglega?
Ég var að hugsa um þetta um daginn á leiðinni heim úr búðinni og þá sló það mig, eins og blaut köld tuska. Ég held að einu fordómarnir sem ég hef orðið fyrir vegna míns útlits, séu þeir sem ég ákveð að fólk sé með.
Ég einhvern veginn er bara búin að ákveða að það hvernig ég líti út sé ekki samþykkt og sé litið hornauga á það en þegar ég hugsa út í það hefur þetta hefur aldrei háð mér, hvorki í mínu persónulega lífi eða t.d. við það að fá vinnur.
Kannski er heimurinn orðinn örlítið umburðarlyndari en við höldum. Bara kannski.