Ingibjörg Hallgrímsdóttir og unnusti hennar hafa reynt að verða ólétt í meira en fimm ár. Á þeim tíma hefur Ingibjörg orðið barnshafandi yfir 11 sinnum en misst öll fóstrin nokkrum vikum síðar.
Í augnablikinu upplifi ég mikið vonleysi og mér finnst ég ekki vera að gera mitt hlutverk sem kona. Ég er oft búin að brotna og öskra og verða það reið að ég næ ekki að tjá mig,
segir Ingibjörg í viðtali við Bleikt.
Unnusti Ingibjargar á einn son úr fyrra sambandi og stefnir parið á að gifta sig í september á þessu ári.
Mig hefur alltaf langað í börn og tók ég syni hans með mikilli gleði. Ég varð svo ólétt sumarið 2013 en fljótlega komumst við að því að það var utanlegsfóstur og ákváðu læknarnir að gera þverskurð til þess að bjarga eggjaleiðaranum.
Ingibjörg og unnusti hennar ræddu barneignir ekki mikið eftir þetta áfall en dag einn tóku þau ákvörðun um að þau væru orðin nógu sterk til þess að byrja að reyna.
Ég fór þá að telja og reikna dagana. Svo kom að því, ég varð ólétt og ekkert smá hamingjusöm. Ég hugsaði með mér að þetta hefði nú ekki tekið langan tíma.
Þegar Ingibjörg var gengin átta vikur missti hún hins vegar fóstrið og tók það virkilega á hana.
Það var mjög erfitt, en ég harkaði það af mér og við héldum áfram að reyna. Ég verð fljótlega aftur ólétt en missi aftur á sjöttu viku. Svona heldur þetta áfram að rúlla, það er eins og það sé einhver veggur se ég næ ekki að fara yfir. Ég hef orðið ólétt 11 sinnum og aldrei náð að ganga lengur heldur en átta vikur.
Árið 2017 ákváðu Ingibjörg og unnust hennar að leita eftir aðstoð hjá IVF Klíníkinni en þá voru þau nú þegar búin að reyna sjálf í fjögur ár.
Við fórum í gegnum allt ferlið hjá þeim og það kemur í ljós að allt er í góðu lagi hjá okkur báðum og ekkert sem stendur í vegi fyrir því að ég geti orðið ólétt. En ég vill meina að það sé eitthvað annað í gangi.
Í ágúst á síðasta ári byrjaði Ingibjörg á hormónalyfjum til þess að geta farið í eggheimtu.
Það gekk mjög vel og þau náðu 12 eggjum og 7 af þeim náðu að frjóvgast og litu virkilega vel út. Ég fór þá í uppsetningu og beið svo spennt eftir prófdeginum þar sem í ljós kom að ég var ólétt. Nokkrum dögum síðar byrjaði að blæða, ég tók því aftur próf sem var jákvætt. Ég fæ þá þær upplýsingar að þetta sé hreiðurblæðing og að togverkirnir séu alveg eðlilegir. En tveimur vikum síðar fór að fossblæða og verkirnir verða óbærilegir, þá tók ég aftur próf sem var neikvætt. Þarna tók ég ákvörðun um að taka mér smá pásu þar sem ég var alveg búin á því andlega. Nú í janúar á þessu ári fékk ég svo hámarks egglos samkvæmt blóðprufu og fór því í uppsetningu, allt leit rosalega vel út. Svo kom að prófdegi og það var neikvætt.
Ingibjörg segir að allt ferlið hafi tekið virkilega mikið á hana.
Þetta hefur verið hreint helvíti fyrir mig, mér finnst ég ekki vera að gera mitt hlutverk sem kona. Þetta tekur á andlega, líkamlega og fjárhagslega. Ég finn enga hvöt til þess að gera neitt í augnablikinu. Ég á erfitt með að vakna á morgnanna og taka á móti deginum, mig langar að grafa mig einhvers staðar niður og vera þar. Mig langar að hverfa í smá stund. Greyið maðurinn minn þarf að lifa með mér í öllum mínum köstum. Ég reyni að brosa og láta sem ekkert af þessu sé að hafa áhrif á mig en í raun er þetta að taka allt of mikið af mér. Þessi sorg er of mikil fyrir mig suma daga.
Ingibjörg segir að hún finni mikinn stuðning frá fólkinu í kringum sig en þó séu alltaf einstaka setningar sem koma upp þar sem henni finnst hún mæta skilningsleysi.
Ég á yndislegt fólk í kringum mig, bæði vinirnir og vinnan og ég er svo þakklát fyrir allan þann stuðning sem þau veita mér. Þrátt fyrir að ég biðji ekki um neitt þá fæ ég svo mikinn stuðning. Einstaka sinnum lendi ég í því að heyra setningar sem ég þoli ekki eins og til dæmis: „Þetta kemur, þú þarft bara að vera þolinmóð,“ eða „ert þú í tæknifrjóvgun, ég þekki eina sem fór og það virkaði strax.“ Ég veit alveg að fólk meinar vel og er að reyna að hvetja mann en fyrir mér virkar þetta akkúrat öfugt, þetta brýtur mig niður. En ég held í vonina að einn daginn muni þetta ganga upp og ég fæ að verða ólétt, fæ loksins að verða mamma. Einn daginn.
Í þessari viku, 26. febrúar – 3. mars stendur Tilvera, samtök um ófrjósemi fyrir vitundarvakningu sem gengur undir heitinu #1af6. En talið er að einn af hverjum sex einstaklingum sem langar að eignast barn glímið við ófrjósemi. Hægt er að skoða dagskrána hér.