Áður en Saga Dröfn Haraldsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn var hún fullkomin mamma. Barnið hennar mátti aldrei vera með hor, það átti alltaf að fara að sofa á réttum tíma, borða einungis hollan mat og sjónvarpið átti að vera spari.
Einnig skildi barnið hennar alltaf vera vel greidd um hárið, í flottum fötum, vel til fara og að sjálfsögðu áttu heimilið alltaf að vera hreint og fínt.
Ég hugsaði að þetta gæti nú ekki verið svo erfitt, bara skipta á bleyjum þegar þess þarf, gefa henni að borða og leika við hana,
segir Saga í færslu sinni á Mæður.com
Ég var elst af mínum systkinum og passaði tvö þeirra oft, það gekk alltaf bara vel. Ég var alveg viss um að þetta yrði bara svipað. En ég var aldrei með þau þegar þau voru veik, ég þurfti aldrei að takast á við nein frekjuköst, erfiðar svefn nætur eða að vakna klukkan sex á morgnanna með þeim.
Saga og kærasti hennar hófu sambúð fljótlega eftir að þau komust að því að hún var ólétt. Fyrir átti kærasti hennar eina stelpu sem var 1 og hálfs árs og gengu þau því beint inn í kjarnafjölskyldu pakkann.
Á tímabili var þetta allt eins og það átti að vera, ég var hlaupandi á eftir henni um húsið að ganga frá dótinu jafnóðum og hún hætti að leika sér með það, ég gekk á eftir henni þegar það var komið smá hor og þurrkaði henni, þegar hún lagði sig hætti ég ekki að þrífa, þó það væri allt hreint þá fann ég eitthvað til þess að þrífa. Á þeim tíma var ég líka farin upp í rúm á kvöldin á sama tíma og barnið.
Saga sá um að gefa henni heitan mat í hádeginu og á kvöldin og var dagskráin hjá þeim alltaf stútfull yfir daginn.
Þegar ég var gengin um 7 mánuði á leið með yngri stelpuna fann ég að það fór að vera erfiðara og erfiðara að hafa alltaf allt fullkomið, jafnvel þó sú eldri væri ekki hjá okkur. Á þessum tíma grét ég rosalega mikið þegar ég var ein, ég hafði gert mér upp svo óraunhæf plön um hvernig heimilislífið ætti að vera og ég missti strax tökin á þessu fullkomna heimilislífi og fannst allt vera ómögulegt. Mér fannst ég vera ömurleg.
Saga tók þá ákvörðun um að hætta að reyna.
Það tók mig smá tíma að átta mig á því að ég er ekki fullkomin en ég gat þó gert mitt besta. Í staðin fyrir að reyna að hafa allt tipp topp þá eyddi ég tíma með stelpunni og eignaðist í kjölfarið margar af okkar bestu stundum saman. Það er enginn að fara að muna eftir því þegar ég vaskaði ekki upp í tvo daga eða setti hreina þvottinn á sófann og lét hann bíða þar til ég nennti að brjóta hann saman. En það sem ég er að fara að muna eftir eru dans partýin hjá mér og eldri stelpunni, pizza kvöldin, sundferðirnar og kúrin.
Hægt er að fylgjast með Sögu á Snapchat og Instagram undir notandanafninu: sagaharalds