Erna Gunnarsdóttir kynntist sambýlismanni sínum, Sigurði Þ. Ögmundssyni árið 2000. Fjórtán árum síðar fóru þau að velta því fyrir sér hvort þau væru mögulega að glíma við ófrjósemi þar sem þau voru ekki orðin ólétt og tíðahringur Ernu var orðin óreglulegur og langur.
Þá kemst kvensjúkdómalæknirinn minn að því að ég er með fjölblöðruheilkenni (PCOS) og er ég sett á lyf til þess að minnka blöðrurnar sem mynduðust. Einnig var ég send í HSG próf en í því er sprautað skuggaefni inn í mann og svo tekin mynd. Þá kom í ljós að annar eggjaleiðarinn var alveg lokaður og hinn var lélegur,
segir Erna í viðtali við Bleikt.is
Læknirinn hennar Ernu vildi byrja á því að prófa að setja hana á frjósemislyf sem heita Pergotime og athuga hvort þau myndu hjálpa þeim að verða ólétt á náttúrulegan hátt.
Það virkaði að hluta til, en því miður kom eggið utanlegs og endaði á því að eyðileggja þann eggjaleiðara sem var í lagi og þurfti því að fjarlægja hann með skurðaðgerð.
Árið 2015 fengu Erna og Sigurður viðtal hjá Art Medica þar sem farið var yfir ferlið þeirra. Þar var Ernu greint frá því að hún þyrfti að léttast um fimm kíló til þess að geta hafið meðferð.
Eftir að hafa misst þessi kíló sem ég þurfti tók við bið eftir því að komast í meðferð. Hún hefst svo í mars 2016 hjá IVF klíníkinni og í byrjun maí fer ég í fyrstu eggheimtuna, þá kemur enn eitt áfallið, það finnast engin egg.
Læknirinn greindi Ernu frá því að það væri óalgengt en gæti þó komið fyrir í einstaka tilfellum. Ráðlagði hann þeim að gefast ekki upp og reyna aftur.
Við lögðum þá upp í aðra meðferð í júlí 2016 og notuðu læknarnir þá annað lyf til þess að örva eggframleiðsluna og í eggheimtunni í ágúst fengum við 4 egg. Tvö af þessum eggjum frjóvguðust og það sem lækninum leist betur á var sett upp en hitt eggið var ræktað lengur og sett svo í frost.
Uppsetningin á eggi Ernu gekk eðlilega fyrir sig en því miður náði eggið ekki að festa sig.
Eftir þetta fórum við í smá frí til þess að jafna okkur aðeins. Það er svo í desember sama ár sem fyrsta fósturvísinum er komið fyrir og níu dögum síðar fáum við loksins jákvætt þungunarpróf. Þórey Sara fæðist svo tæpum níu mánuðum síðar og er í dag orðin stór og stæðileg sex mánaða gömul draumadís.
Erna segir að fólk sem ekki hefur gengið í gegnum svona ferli geti ekki gert sér grein fyrir því hvað það kosti bæði peningalega og líkamlega séð.
Þegar við fórum í þetta kostaði fyrsta meðferðin tæpa hálfa milljón fyrir utan lyfin sem eru ekki ódýr. Seinni meðferðin var aðeins ódýrari því þá eru tryggingarnar farnar að borga með en hún kostar samt um 230 þúsund ásamt lyfjakostnaði. Líkamlegi parturinn er svo að það er verið að dæla gífurlegu magni af hormónum í líkamann á stuttum tíma til þess að gabba eggjastokkana í það að gera fleiri en eitt egg tilbúið. Þetta veldur miklu álagi á líkamann og maður verður allur aumur og útþaninn. Einnig tekur þetta virkilega á sálarlega þar sem maður er alltaf að bíða og vona að þetta gangi allt saman vel fyrir sig og ekkert klikki. Sérstaklega eins og hjá okkur þar sem engin egg komu í fyrstu tilraun.
Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið eru 1 af hverjum 6 einstaklingum sem langar til þess að eignast barn í erfiðleikum með það. Tilvera, eru samtök um ófrjósemi sem stofnuð voru þann 19. nóvember árið 1989. Í upphafi var tilgangur félagsins að afla upplýsinga um ófrjósemi og meðferðarúrræði við henni og auðvelda fólki aðgang að þeim upplýsingum. Einnig barðist félagið fyrir því að aðstaða Glasafrjóvgunardeildar LSP yrði stækkuð og bætt. Í dag er markmið félagsins að vera málsvari þess fólks sem á við ófrjósemi að stríða út á við, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og annars staðar þar sem þurfa þykir. Einnig er félagið málsvari annarra sem þurfa að nýta sér tæknifrjóvgunarmeðferðir. Þá gætir félagið hagsmuna þessara hópa og skal veita almenna fræðslu um mál sem varða skjólstæðinga Tilveru á heimasíðu sinni og með öðrum leiðum eftir því sem kostur er.