Auður Birna Þorsteinsdóttir Blöndal segist oft hafa fengið spurningar þegar hún var ólétt hvort hún ætlaði ekki að losa sig við hundinn sinn þegar barnið kæmi í heiminn. Þrátt fyrir að Auður skilji vel að ekki sé hægt að bera saman börn og dýr þá gæti hún aldrei ímyndað sér neitt annað en að sjá barnið sitt alast upp með dýrum.
Að fylgjast með Gabriel Birni og Karma saman og sjá sambandið þeirra þróast er yndislegt. Á kvöldin fara þau saman inn í rúm og ef hann grætur kemur hún hlaupandi til þess að athuga hvað sé að,
segir Auður í einlægri færslu sinni á Uglur.com
Auður segir að Karma, hundurinn þeirra sér mjög stór hluti af fjölskyldunni og að sonur hennar Gabriel sé ótrúlega heppin að eiga „stóra systur“ sem passar upp á hann.
Sama þótt hún sé fjórfætt og loðin. Ég fékk oft spurningar þegar ég var ólétt, hvort við ætluðum ekki að losa okkur við hana þegar barnið myndi fæðast og þess háttar. En af hverju ættum við að gera það? Ég geri mér grein fyrir því að hundur og barn eru tveir mjög ólíkir hlutir en ég ber ábyrgð á þeim báðum. Að eiga hund, og dýr yfirhöfuð er ábyrgð sem þú ert að taka á þig, þú þarft að hugsa um dýrið þitt og mér finnst mjög mikilvægt að minna fólk á það.
Auður segist nýlega hafa tekið þátt í samtali þar sem verið var að ræða það hvort hundar væru partur af fjölskyldunni eða bara hlutur í henni.
Að sjálfsögðu er Karma partur af fjölskyldunni okkar, en auðvitað líta ekki allir á það svoleiðis. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt þegar að fólk getur ekki virt það við mig hvernig ég lít á hundinn minn. Á eftir fylgir oftar en ekki spurningin hvort ég elski ekki barnið mitt meira en hundinn?!
Auður segir svarið við þeirri spurningu einfalt.
Ég elska þau á mismunandi hátt, þú berð mismunandi tilfinningar til allra í lífi þínu og þú berð ekki sömu tilfinningar til barnsins þíns og foreldra þinna, það er bara ómögulegt. Við eigum bara að virða fjölskyldu annara sama hvernig hún stendur.
Auður segist ekki geta hugsað sér lífið án Karma sem að hennar sögn er ótrúlegur karakter og yndisleg.
Litla fjölskyldan okkar væri ekki eins ef við ættum hana ekki. Ég hlakka svo til þess að fylgjast með vinasambandi Gabriels og Karma stækka og þroskast. Það verður sennilega aldrei róleg stund í kringum þau. Svo er líka bara svo gott fyrir börn að læra strax hvernig á að koma fram við dýr, hvað má og hvað má ekki.
Hægt er að fylgjast með Auði á Instagram: audurbirna /Snapchat: uglur.com og Facebook: Uglur.com