Embla Ýr dóttir mín varð 1 árs 10. janúar síðastliðinn og því varð að sjálfsögðu að halda upp á þann stóra áfanga. Ég held að ég hafi varla verið orðin ólétt þegar ég byrjaði að plana eins árs afmælið hennar og pæla í hvaða þema ég vildi hafa og búa til allskonar lista og skipuleggja.
Ég byrjaði svo fyrir alvöru að skipuleggja afmælið í október en þá ákvað ég að einhyrningarþema yrði fyrir valinu. Ég pantaði mest allt af skrautinu erlendis.
Ég bjó allar veitingarnar til sjálf en málið flæktist aðeins þar sem við Embla greindumst báðar með lungnabólgu mánudaginn fyrir afmælið sem var ekki alveg inn í tímaskipulaginu mínu. Það var því nóg af panodil, nocco og kaffi sem hélt mér gangandi þessa viku og ótrúlega góðir vinir sem komu kvöldið fyrir afmælið og hjálpuðu mér að skreyta. Ég hefði aldrei klárað þetta án þeirra !
Skreytingarnar
Ég lagði aðal áhersluna á veisluborðið en ég var búin að finna mynd af mjög svipuðu borði inná pinterest. Tjullpilsið keypti ég tilbúið á amazon.co.uk og það var bara límt á borðið. Það var reyndar svo krumpað þegar að kom úr pakkningunni að ég þurfti að renna yfir það nokkrar umferðir með gufugæjanum mínum. Blöðruboginn er búinn til úr blöðrum í nokkrum tónum af bleikum, fjólubláum og bláum sem er blásið mismikið til að þær séu allar í mismunandi stærðum. Allar blöðrurnar eru svo þræddar uppá band, þétt saman og svo er öll lengjan fest við vegginn með bandi og límbandi. Gylltu stafirnir voru líklegast mesta föndrið. Ég byrjaði á því að fara í Pixel og láta þá prenta út nafnið hennar með svörtum stöfum á risastórt hvítt blað. Ég klippti svo stafina út og notaði sem skapalón á gylltan stífan glimmerpappír sem ég fékk í Söstrene og klippti loks út stafina á gyllta glimmerpappírnum og límdi stafina á vegginn.
Drykkjarbarinn var skreyttur með pompoms í bleiku, fjólubláu, bláu og hvítu í mismunandi stærðum og litatónum. Pompoms fékk ég í bæði í Partýbúðinni og á aliexpress.
Ég var svo bæði með kók og kók zero í gleri og tómar froosh flöskur sem ég skreytti í einhyrningaþema. Ég keypti gyllta einhyrninga caketoppers á ebay og lét senda til Íslands. Hér er hægt að skoða þá. Ég var svo með lituð blöð í bleiku, fjólubláu og bláu og mjóa satínborða í sömu litum. Ég skreytti líka drykkjarflöskurnar með sömu skreytingum.
Í drykkjarkönnunum var ég svo með Ribena sólberjasaft, bleika einhyrningamjólk (mjólk og matarlitur) og sódavatn með sítrónu.
Veitingarnar
Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að gera þessa köku, held hún sé ein sú skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég var með köku undir skrautinu sem heitir Hindberjadraumur. Ég bjó hornin og eyrun til úr sykurmassa og lét þorna í 3 daga og málaði svo gyllt með gylltu luster dust. Makkinn hans er búinn til úr smjörkremi í 5 mismunandi litatónum í bláu, fjólubláu og bleiku. Ég notaðist við 6 mismunandi sprautustúta og sprautaði sitt á hvað ofaná kökunni, aðeins fram á “ennið” og svo niður aðra hliðina. Ég notaði svo örmjóan sprautustút og þykkt svart smjörkrem til að gera augun.
Bollakökurnar voru gulrótakökur með rjómaostkremi og voru gerðar á svipaðan hátt og stóra kakan. Hornin og eyrun búin til úr sykurmassa og máluð og kremið litað í bleiku, fjólubláum og bláum og sprautað á með 5 mismunandi sprautustútum
Kökupinnarnir eru búnir til úr súkkulaðiköku frá Betty Crocker sem er mulin niður og blandað saman við 3/4 dós af Betty Crocker hvítri frosting. Kúlur eru svo mótaðar og dýft í hvítt súkkulaði. Hornin og eyrun eru búin til úr sykurmassa og makkinn úr smjörkremi í nokkrum litum með nokkrum mismunandi sprautustútum. Ég málað svo augun með mjóum pensli og gylltu málningunni sem ég notaði til að mála hornin.
Stjörnukakan er red velvet kaka með rjómaostakremi sem er mín uppáhalds kaka. Ég lenti í miklum vandræðum með skreytinguna en kremið var svo lint að ég þurfti að sprauta smá og henda kökunni og kreminu svo inní ísskáp í smástund á milli til að kæla af því þetta var allt að leka útum allt. Þetta varð því ekki alveg jafn fallegt og til stóð en hún er svo litrík og falleg að það breytir svosem engu ! Ég notaðist við smjörkrem í 3 litum sem ég setti saman í einn sprautupoka og setti svo stjörnustút á endann og þá sprautaðist smá af hverjum lit í hverri stjörnu.
Ég vil alltaf hafa líka eitthvað hollt og gott í afmælum svona til að vega uppá móti öllum sykrinum. Ég límdi á boxin gyllta einhyrninga en þetta eru þeir sömu og ég notaði á drykkjarbarnum. Ég var svo með litla glæra gaffla ofaní. Ég var með jarðaber, bláber, mangó og græn epli til að vera með þetta í öllum litum.
Ég bakaði hvítar franskar makkarónur og spray-aði þær gylltar með gullsprayi og stakk svo svona kökupinna ofaná þær sem ég fékk á aliexpress. Hér er hægt að finna uppskrift af frönskum makkarónum.
Ég er að sjálfsögðu tækjaóð og eitt af þeim mörgu óþarfa tækjum sem ég á er candyfloss vél. Hún er til af því ég var einu sinni með Sirkusmorðgátu partý og þá fannst mér það algjört möst að bjóða uppá candyflott. Ég fékk þá svona litríka með því að lita venjulegan hvítan sykur með gelmatarlitum og láta hann svo þorna alveg. Með þessari leið er hægt að gera þá hvernig sem er á litinn. Þetta er eitt af því sem er meira sem skraut heldur en matur en krökkunum í afmælinu fannst þetta þó mikið sport.
Ég var með nokkrar tegundir af snakki í boxum. Boxin eru hvít box sem ég keypti á amazon.co.uk og skreytti svo með einhyrningi og satínborða í þemalitunum. Ég var með paprikuskrúfur, stjörnupopp og saltkringur.
Í viðbót við ávaxtaboxin var ég líka með grænmetisbox. Þetta eru einnota plaststaup sem ég sprauta voga ídýfu í botninn á og set svo gúrku, gulrætur og papriku í strimlum ofaní. Ótrúlega einfalt og þægilegt auk þess að vera fallegt á veisluborðinu.
Ég var með nokkrar tegundir af salati og smyrjum með góðu súrdeigsbrauði. Ég var með pastasalat og ostasalat en hér er hægt að skoða uppskrift af því. Eins var ég með heimagert túnfisksalat, pestó og jalapeno hummus.
Ég var líka með mini pizzur fyrir krakkana sem ég keypti tilbúnar.
Afmælisbarnið naut sín vel í afmælinu með alla að dúllast í kringum sig og mamman var himinlifandi yfir því að ná loksins að skella slaufu í hárið á barninu. Hún fékk reyndar ekki að vera þar lengi en það breytir engu – myndin er til ! Um kvöldið buðum við svo fjölskyldunni í mexíkó kjúklingasúpu og brauð og kökur á eftir. Yndislega vel heppnaður dagur að baki með litla gullinu okkar og öllum sem okkur þykir vænt um. Lífið er yndislegt
Færslan birtist upphaflega á Fagurkerar.is