Guðný Bjarneyjar er sorgmædd og virkilega reið yfir því að hafa fengið staðfestar fréttir af tveimur ungum einstaklingum sem misstu líf sitt til fíkninnar síðastliðna tvo sólarhringa. Guðný segist vera virkilega reið yfir því að meðferðaraðilar neyðist til þess að draga úr þjónustu, fækka meðferðarplássum og loka á alla þjónustu á landsbyggðinni.
Foreldrar, börn og systkini eru að horfa á eftir ástvinum sínum. Fyrst í klær Bakkusar konungs og svo í hendur dauðans. Þeir vinna saman, Bakkus sem vill koma þegnum sínum í geðveiki fíknarinnar þar til hjarta þeirra hættir að slá en þá tekur dauðinn við og fagnar hverju lífi sem hann fær. Andstyggð, þessir tveir saman,
segir Guðný í einlægri færslu á Facebook.
Í samtali við Bleikt segir Guðný að málið sé allt of alvarlegt til þess að það megi hundsa það.
Þessir tveir einstaklingar sem ég hef fengið staðfestingu á að hafi látist undanfarna tvo sólarhringa eru sennilega ekki þeir einu.
Tvær ungar manneskjur sem eiga fullt af fólki í kringum sig sem nú syrgja og sakna. Tvær ungar manneskjur sem Bakkus klófesti, átti, píndi og kvaldi áður en hann kom þeim í hendur dauðans. Hann hikar ekki við að nota ljáinn sér í hag, skítt með hvað öllum öðrum finnst.
Guðný segir að vegna fjárskorts og niðurskurðar hafi meðferðaraðilar neyðst til þess að draga úr þjónustu til fólks með fíknivandamál.
Ég er sorgmædd og reið, nei ég er sorgmædd og bandöskubrjáluð. Við sem gerum okkur grein fyrr því sem er að gerast eigum að öskra, arga og garga. Stappa niður fótunum þar til ráðamenn þjóðarinnar átta sig. Þeim virðast ekki duga tölurnar um látna, við verðum að sýna þeim. Gera þeim skylt að mæta í jarðarfarirnar, sjá afleiðingar, sjá sorgina.
Guðný segir að ekki megi taka dauðsföll af völdum sjúkdómsins alkóhólisma sem eðlilegum og sjálfsögðum hlut.
Líkt og þetta sé eðlileg framvinda. Það er ekki lögmál að fólk þurfi að deyja úr alkóhólisma. Ólíkt mörgum krónískum og banvænum sjúkdómum er hægt að ná góðum bata. En margir/flestir af þeim sem þjást af sjúkdómnum þurfa hjálp við að afeitrast og ná lágmarks jafnvægi. Þá hjálp er verið að minnka, skera niður og loka á.
Guðný segir að það séu ekki einungis sjúklingarnir sjálfir sem þjást af völdum alkóhólisma heldur einnig heilu fjölskyldurnar.
Þær eru jafnvel tvístraðar og eru í sárum. Aðstandendur, augun sem gráta, hjörtun sem blæða, eru alveg næg ástæða til þess að eitthvað sé gert til að fækka dauðsföllum, sorg og söknuði. Að ég tali nú ekki um alla þá sem eru látnir. Elsku vinir, gefum okkur tíma til þess að hlúa að þeim sem þurfa að ganga í gegnum sorg og missi, enginn á að þurfa að standa einn í sorg.