Þetta eru kvikmyndirnar Ég man þig sem þénaði tæpar 76,6 milljónir kr. (47.368 gestir) og Undir trénu sem þénaði 67,7 milljónir kr. (42.427 gestir). Nýjasta Star Wars myndin, The Last Jedi, var svo í þriðja sæti með 67,5 milljónir kr. í tekjur en sú kvikmynd er jafnframt sú eina þar sem aðsókn var yfir 50 þúsund manns á árinu en heildaraðsókn ársins að henni var 50.645 enda þótt kvikmyndin hafi einungis verið í sýningu frá 12. desember.
Á síðustu fjórum árum hafa íslenskar kvikmyndir trónað þrisvar á toppnum yfir tekjuhæstu kvikmyndir ársins, sem hlýtur að teljast einkar jákvætt fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað. Að þessu sinni voru þrjár íslenskar myndir á lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndir ársins en kvikmyndin Hjartasteinn situr í 11. sæti með tæpar 34,5 milljónir kr. í tekjur en yfir 22.000 manns sáu kvikmyndina í bíóhúsum.
Heildartekjur allra kvikmynda í íslenskum kvikmyndahúsum á árinu námu 1.688.453.577 kr. sem er á pari við tekjur kvikmyndahúsa árið 2016 sem námu þá 1.689.720.455 kr. Aðsókn dróst hins vegar saman um 3,4%. Var 1.371.820 árið 2017 en var 1.420.435 árið 2016. Hver Íslendingur fór því rúmlega fjórum sinnum í kvikmyndahús á árinu.
Hlutfall íslenskra kvikmynda af heildartekjum var 11,22% árið 2017 en var 6,6% á árinu 2016 svo þeirra íslensku var umtalsvert fyrirferðarmeira í kvikmyndahúsum en árið á undan. Samtals voru 17 íslenskar kvikmyndir/heimildarmyndir sýndar í kvikmyndahúsum á árinu en voru 15 árið á undan. Vinsælasta íslenska heimildarmyndin á árinu var kvikmyndin um Reyni sterka sem rúmlega 2.200 manns sáu í kvikmyndahúsi og halaði hún inn rúmar 3,3 milljónir kr.
Bandarískar kvikmyndir áttu 85% af markaðnum sé horft til tekna en 87% sé horft til aðsóknar. Þetta er ívið minna en árið á undan þegar bandarískar kvikmyndir voru með í kringum 90% af markaðinum, sem var óvenjuhátt hlutfall. Allar 20 stærstu myndirnar, að þeim þremur íslensku undanskildum, komu úr smiðju bandarísku kvikmyndastúdíóanna. Síðasta ár var einkar gott fyrir Disney á Íslandi því þaðan komu myndirnar sem röðuðu sér í sæti þrjú til sex. Aðrar erlendar kvikmyndir en bandarískar voru því með 3,4% af markaðnum í tekjum á síðasta ári. Vinsælasta kvikmynd ársins vestur í Bandaríkjunum í tekjum talið var Star Wars: The Last Jedi.
Alls voru 172 kvikmyndir teknar til sýninga í kvikmyndahúsum á síðsta ári en voru 179 tvö ár þar á undan (2015 og 2016).
Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2017 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn. Þetta er gert svo að hlutfall boðsmiða eða afsláttarmiða í umferð hafi ekki áhrif á vinsældir kvikmynda.
1) Ég man þig
2) Undir trénu
3) Star Wars: The Last Jedi
4) Thor: Ragnarrok
5) Guardians of the Galaxy – Vol. 2
6) Beauty and the Beast (2017)
7) Despicable Me 3 (Aulinn ég 3)
8) Fast and Furious 8 (The Fate of the furious)
9) Dunkirk
10) Spider-Man: Homecoming (2017)
11) Hjartasteinn
12) Wonder Woman
13) Pirates of the Caribbean – Salazar’s Revenge
14) La La Land
15) It (2017)
16) Kingsman: The Golden Circle (2017)
17) Logan
18) Justice League+
19) The Lego batman Movie
20) Baywatch