Jú jú mikið rétt allavega flest allir foreldrar sem betur fer, en Bubbi Morthens söng eitt sinn um að elska svo mikið að hann sundlaði og verkjaði og það er tilfinning sem ég þekki mjög vel. Í minni fjölskyldu er þetta kallað æj æj tilfinning. Ég fékk svona æj æj tilfinningu strax sem barn, þegar ég sá gamla konu missa eplið sitt í strætó, þegar ég horfði á mömmu mína og pabba minn sem ég elska svo undurheitt og þau brostu svo fallega og þegar litli bróðir minn missti sleikibrjóstsykurinn sinn í mölina, þegar litla systir mín grét og þegar amma varð leið af því ég vildi ekki gista hjá henni.
En eftir að börnin mín fæddust þarf ekkert til að mig verki af ást. Smá dæmi um þetta er þegar litla örverpið mitt hann Erpur Ingi sem aðeins er þriggja og hálfs árs gamall kemur til mín hlaupandi yfir sig spenntur yfir Kinder eggi sem ég keypti handa honum, horfir á mig með stóru grábrúnu augunum sínum og segir: „Takk mamma,“ …æj æj mig sundlar af ást.
Annað dæmi, þegar sú 12 ára kemur til mín og gefur mér fallega teikningu sem hún er búin að vera óratíma að teikna bara fyrir mig og er svo yfir sig spennt að heyra frá mér fallegt hrós; æj æj sundlar af ást.
Þegar elstu dæturnar eru búnar að plana saman góðverk bara handa mér og svo kemur stundin og hamingjan lýsir upp andlitin þeirra; æj æj sundlar af ást. Elstu börnin tvö og meira að segja tengdasonurinn hafa sömu áhrif á mig og ná að kalla fram þessar tilfinningar sem ég ekki kann að koma orðum að nema kalla þetta æj æj.
Þegar Erpur litli dettur með Kindereggið og það brotnar; æj æj verkur af ást eða þegar erfiðleikar banka upp á hjá elsku bestu börnunum mínum. Höfnun, einelti, stríðni, líkamlegur sem og andlegur sársauki, söknuður, ástvinamissir og allt þetta sem við þurfum jú öll að eiga við með börnunum okkar og veita þeim huggun, skilning og faðm til að gráta í, úff!
Það er án alls vafa það allra erfiðasta sem ég hef og mun nokkurn tíma takast á við tilfinningalega og stór verkur af ást. Ég vildi svo oft geta tekið allt sem meiðir þau og bara borið það sjálf en allt þetta á víst að kenna okkur eitthvað um lifið. Ég er þó mjög frasafælin á köflum og játa að ég þoli ekki frasa eins og að Guð leggi ekki meira á okkur en við þolum eða að tíminn lækni öll sár. Nei!
Mér finnst alls ekki að foreldrar til dæmis þurfi að þola það út frá einhverjum þolgæðum frá Guði að missa börnin sín eða að ung börn, og unglingar þá líka, þurfi að þola það að missa foreldra sína og trúi alls ekki að sár eftir slíkt læknist með tímanum. En lífið gerist eins og sagt er og þó svo að mig verki af ást allan þann tíma sem ég hugga börnin mín og sundli af ást í hvert sinn er þau brosa og eru yfir sig hamingjusöm þá er þetta ást sem ég myndi aldrei vilja vera án.
Með skaða á ég auðvitað við að ég má ekki láta allt eftir þeim bara af því ég er að falla í yfirlið af ást. Ég skráði mig í fjölskyldu Art sem ég hlakka verulega til að takast á við og vona að þar læri ég til dæmis að hætta að vera með innantómar hótanir, eins og til dæmis, „nú færðu ekkert kósýkvöld,“ hálftíma seinna er allt gleymt og við gleypum í okkur sælgæti yfir fjölskyldumynd af vodinu, eða „þú kemur sko ekki með mér í búðina aftur,“… hmmm???? Hvernig á svo að standa við það?? Ekki hægt.
Ég bind svo miklar vonir við þetta námskeið að ég er pínulítið að trúa því að systurnar þrjár sem enn búa heima og svo hin eldri sem ekki búa hér muni alveg hætta að rífast. Ég veit það samt að það gerist aldrei og ég veit það líka að innst inni er það ekki það sem ég vil. Ég vill aðeins að þeim líði vel og að ég geti áfram verið kletturinn þeirra, ég veit að ég mun alltaf elska þau svona heitt, ég veit að ég mun vaxa og þroskast áfram sem og þau. Ég veit að þegar ég verð gömul og farin að miðla til barnabarnanna þá verð ég hokin af reynslu og get sagt þeim frá æj æj fjölskyldutilfinningunni og ég er eiginlega alveg viss um að þá mun mig sundla og verkja enn sem áður.
Auðvitað viljum við öll pakka börnunum okkar inn í bómull og vernda þau frá öllum þeim skaða sem á þau mun einhvern tímann dynja, því það er jú staðreynd að enginn fer klakklaust í gegnum lífið í það minnsta fáir, en er ekki samt ljúft að finna svona til og vita að hver fruma í líkamanum er aldrei meira á iði en eins og þegar móðurástin er til staðar.
Ég er samt alls ekki fullkomin frekar en aðrar mæður og æsi mig og er oft óréttlát og fæ hrikalegt samviskubit oft í mánuði en það er efni í heilan pistil í viðbót. Ég vona bara að fleiri mömmur og pabbar tengi við æj æj.. en allavega þá elska ég svo heitt að mig sundlar og verkjar… æj æj.