Fiskidagstónleikarnir á Dalvík voru haldnir 12. ágúst síðastliðinn en talið er að yfir 30 þúsund manns hafi sótt tónleikana. Margar af skærustu stjörnum landsins stigu á stokk ásamt hljómsveit Rigg viðburða í glæsilegri umgjörð eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Friðrik Dór Jónsson flutti lagið Í síðasta skipti með miklum ágætum og tóku gestir tónleikanna virkan þátt í söng og leik. Friðrik Dór lét hafa það eftir sér baksviðs eftir flutninginn að hann hefði fengið eitthvað ryk í augun í miðju lagi.
„Ég er búinn að syngja þetta lag þúsund og tíu sinnum. Það gerðist eitthvað sérstakt þarna á Dalvík. Meiriháttar.“
segir Friðrik. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Rigg viðburða. Rigg viðburðir sem hafa umsjón með Fiskidagstónleikunum eru nú að leggja lokahönd á undirbúning við stórtónleika Friðriks Dórs í Eldborg 9. september og í Íþróttahöllinni á Akureyri 30. september en um 120 manns koma að tónleikunum með einum eða öðrum hætti. Stórhljómsveit undir stjórn Ara Braga Kárasonar hefur æft stíft í sumar og er mikil eftirvænting í hópnum að sýna afraksturinn í fullri lengd á stóra sviðinu.