Ég veit ekki alveg hvað fékk mig til þess að skrifa þetta og vilja deila með öðrum. Kannski var það hefndin sem drífði mig áfram, reiðin eða óttinn. Sum ykkar munu segja þetta vera dramatískt,væmið, hefði getað verið verra eða það hafa margar aðrar konur lent í miklu verri hlutum og skrá mig svo í hóp athyglissjúkra unglinga en ég vona svo innilega að það eru einhverjir þarna sem lesa þetta og sýna skilning hjá þessari athyglissjúku unglingsstelpu.
Ég er fædd 2002 og að fara klára seinasta árið mitt í grunnskóla. Okey, nú hætta sumir að lesa vegna þess að ritari þessarar greinar er of ungur til þess að vert sé að eyða tímanum í. En ef ég segi strax að kennari í skólanum mínum hafi brotið á mér og að aðstoðarskólastjórinn minn hafi tekið mig á fund til að láta mig vita að það væri ljótt af mér að segja frá? Væri þá loksins eitthvað merkilegt til að lesa um? Gjörðu svo vel, lestu þá áfram.
Þetta gerðist árið 2016 þegar ég var í 8. bekk. Sögur fóru um elsta stigið að dönskukennarinn/smíðakennarinn hafi tekið framan á peysu hjá stelpu og sett penna, sem hann hélt á, inn á hana. Af hverju? Enginn veit. En telst það til einhvers áreitis? Já örugglega, hvaða ástæðu hefur kennari til þess að mega taka framan á boli hjá nemendum og henda hlutum inn á þá? Og til þess að bragðbæta þetta aðeins þá gerði hann þetta fyrir framan bekkinn. Hann var með a.m.k. fimm vitni en það var ekki tekið mark á neinu þeirra. Og að lokum var atburðinn orðinn að kjaftasögu sem fáir tóku eftir, þ. á m. ég, eða þangað til að ég fór í smíðaval.
Ég hafði sótt sérstaklega um að fá að skipta í valið og var búin með einn til tvo tíma. Kjaftasagan var að engu og ég fór til kennarans til að biðja um aðstoð. Hann fór með mér að bekknum mínum sem var u.þ.b. 3-4 metrum frá en tók svo allt í einu þéttingsföstu taki um mjaðmirnar á mér með báðum höndum og gekk þannig með mig áfram. Ég var í þröngum íþróttabuxum, í hlýrabol og gollu yfir. Hárin spruttu á gæsahúðinni minni og mér varð ískalt. Þessir 3-4 metrar urðu að hálfmaraþoni og ég var orðin að 13 ára gömlum frosnum ísklumpi sem var fastur í höndum á 51 árs gömlum manni. Hvað átti ég að gera? Ég gat ekki hreyft mig, heilinn var frosinn og adrenalínið hafði lamað hvern einasta stað á líkamanum, meira að segja svitakirtlarnir réðu ekki við sig og grétu sig í gegnum húðina mína. Við vorum að koma að bekknum þegar ég heyrði í vinkonu minni öskureiðri að skipa kennaranum að hjálpa sér. Hann sleppti eins og skot og ég fann fyrir þungum og hröðum hjartslættinum og svitaperlunum sem ég hélt að voru löngu frosnar á ískaldri húðinni minni. Ég gekk rakleiðis að bekknum mínum og hugsaði um hvort maður ætti nú að segja eða þegja. Aðstoðarskólastjórinn minn myndi aldrei trúa mér þar sem bekkjarfélagar mínir voru duglegir að kvarta út í þennan kennara, þetta væri bara lítil spunasaga til þess að losna við hann, svo á endanum ákvað ég að þegja.
Skóladagarnir liðu og mætti ég í alla tíma hjá þessum kennara, dönsku- og smíðatíma, með skömm um hvað aðrir myndu halda um mig, hvort ég væri bara drusla. Ég var byrjuð að dreyma ógeðslega drauma um þennan mann og vaknaði á nóttunni til að gá hvort ég var ekki örugglega örugg. Ég var byrjuð að sofa upp í hjá foreldrum mínum því ég var hrædd um það brytist einhver inn til mín til að snerta mig eða nauðga mér. Ég ákvað að tala við bestu vinkonu mína og var ótrúlega ánægð að vita að hún tók ekki eftir atburðinum, þrátt fyrir að hafa verið með mér í tímanum.
Loksins ákvað ég samt að segja frá. Ég var komin með svo mikið ógeð að þurfa að horfa á manninn á hverjum einasta degi vitandi að það væri aldrei neitt gert í þessu svo ég sagði frá þessu fyrir framan bekkinn minn í miðjum náttúrufræði tíma (Ekki halda að ég truflaði tímann, við vorum hvort eð að spjalla) og þá barst sagan út um skólann. Eldri krakkarnir voru byrjaðir að koma til mín til að vita hvernig ég hafði það og allt í einu vissu þetta allir. Ég talaði einnig við umsjónarkennarann minn og deginum eftir var mér vísað á fund með aðstoðarskólastjóranum. Þar talaði hann um að ég hafði enga sönnun fyrir þessu atviki, það hafi verið dónalegt og ljótt af mér að hafa sagt frá þessu og að ég hafi verið að skemma mannorðið hjá þessum manni. Já ég skrifaði þetta beint á Notes hjá mér til þess að muna þetta alveg. En það hafði engin áhrif. Ég var með vitni, hann lét eins og hann heyrði ekki að ég hafi nefnt það. Eftir þennan fund hafði ég það ekki einu sinni í mér að segja foreldrum mínum frá þessu, það er ljótt að segja frá, ekki satt? En fljótlega komust þau að því en ekkert var gert.
Fékk ég að fara í aðra stofu með öðrum kennara meðan dönskutíma stóð? Nei, aðstoðarskólastjórinn skipaði mér að hegða mér eins og „venjulegri manneskju” og mæta í tímana sem mér bar skyldu að mæta í. Gera ekki öll fórnarlömbin það annars? Pína sig í hafa gerandann sinn standa yfir sér meðan þau klára dönskuprófið sitt þegar þau gætu verið með annan kennara en samt í nákvæmlega sama efni?
En með þessari grein var ég ekki að leitast eftir vorkunn, athygli eða sýna hversu dramatísk ég get verið. Þetta eru tilfinningar, upplifun mín á skólasamfélaginu sem ég bý í og þöggunin sem margar stelpur hafa lent í. Þetta er nú orðið að stórum örum sem ég sé á hverjum degi. Þótt atburðurinn hafi ekki verið sá allra stærsti þá fannst mér samt hafa verið brotið á mér. Þöggunin, vantraustið og óvirðingin skilur eftir sig stærstu örin.
Höfundur greinar er íslensk stúlka sem óskar nafnleyndar.