Tónlistarkonan Rebekka Sif frumsýndi nú á dögunum myndband við lagið Wondering sem er titillag fyrstu plötu hennar sem kemur út 17. ágúst næstkomandi. Lagið Wondering er hress sumarsmellur sem fjallar um skondin samskipti milli tveggja ástvina. Á plötunni eru ellefu fjölbreytt frumsamin lög sem spanna allt frá indie poppi til rokktónlistar.
Í tilefni útkomu fyrstu plötunnar mun Rebekka Sif halda útgáfutónleika á Rosenberg kl. 21:30 þann 17. ágúst næstkomandi. Þar mun hún koma fram með hljómsveit sem er skipuð Aron Andra Magnússyni á gítar, Sindra Snæ Thorlacius á bassa, Daniel Alexander Cathcart-Jones á hljómborð og Kristófer Nökkva Sigurðssyni á trommur. Söngkonurnar Silja Rós Ragnarsdóttir og Ingibjörg Erla Þórhallsdóttir verða bakraddir.
Rebekka Sif er efnileg söngkona og lagahöfundur úr Garðabænum. Hún byrjaði að semja tónlist snemma á unglingsárunum en fór ekki að koma fram með sitt eigið efni fyrr en árið 2014. Lagið hennar Dusty Wind komst inn á vinsældalista Rásar 2 seint árið 2014. Sumarið 2015 var mjög farsælt og sat lagið hennar I Told You í fimm vikur á vinsældalista Rásar 2. Það sama haust tók hún þátt í The Voice Ísland þar sem hún var valin í lið Unnsteins Manuel. Rebekka Sig er útskrifuð úr Tónlistarskóla FÍH í jazz– og rokksöng, en áður hafði hún útskrifast með burtfararpróf í klassískum söng frá Tónlistarskólanum í Garðabæ sem hún lauk aðeins 19 ára gömul. Í haust flytur hún út fyrir landsteinana og mun hefja söngkennaranám í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn.
Síðustu ár hefur Rebekka unnið alfarið sem tónlistarkona og söngkennari. Hún hefur kennt hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu frá árinu 2013 og verið söngstjóri í þremur jólasýningum Borgarbarna. Árið 2014 bjó hún til skapandi söngnámskeið fyrir börn ásamt Klifinu í Garðabæ þar sem börn fá að spreyta sig á lagasmiðum ásamt því að læra söngtækni, framkomu og jafnvel örlítið í hljóðfæranotkun. Rebekka hefur raddþjálfað fyrir Skoppu og Skrítlu, verið söngstjóri í uppsetningu Garðarskóla á söngleiknum Cry Baby, ásamt fleiri mismunandi verkefnum.