Á morgun, þann 29. júlí verður Druslugangan gengin í sjöunda sinn í Reykjavík. Gangan hefst við Hallgrímskirkju klukkan 14.00, fer þaðan niður Skólavörðustíg og Laugarveg og endar á Austurvelli þar sem við taka ræðuhöld og tónleikar.
Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis sem hefur stækkað ört með hverju árinu síðan hún var fyrst haldin 2011.
„Megin markmið göngunnar er að losa þolendur undan skömminni sem kynferðislegt ofbeldi skilur eftir sig og skila henni þangað sem hún á heima, hjá gerendum. Við berjumst gegn orðræðu sem gefur til kynna að kynferðislegt ofbeldi geti verið þolendum að kenna. Sú er aldrei raunin!
Í ár verður áherslan lögð á baráttu gegn stafrænu kynferðisofbeldi, við krefjumst þess að dómstólar og samfélagið taki afstöðu og líti á stafrænt kynferðisofbeldi með sama hætti og önnur ofbeldisbrot!
Við hvetjum alla til að sýna samstöðu, taka afstöðu, skila skömminni og ganga druslugönguna með okkur,“
kemur fram á viðburði göngunnar á Facebook.