Á dögunum tilkynnti vinkona mín að hún gengi með barn. Ok! Það gerist á hverjum degi, hugsið þið eflaust? Jú jú mikið rétt en í þessu tilfelli flögruðu ótal hugsanir hring eftir hring. Þessi vinkona mín var nefnilega ekki að tilkynna komu fyrsta barns, ekki heldur um sitt annað, né þriðja… Nei! Hún var að tilkynna komu á sínum sjötta erfingja.
Af hverju hugsaði ég svona mikið og varð svona stressuð fyrir hennar hönd? Ég hef nefnilega gengið í gegnum þetta líka. Það er bara virðist alls ekki vera eins að segja frá þegar barnafjöldinn er orðin svona stór. Fólki virðist finnast það í lagi að koma með athugasemdir á borð við: „Enn einu sinni? Vitið þið ekki hvað getnaðarvarnir eru?“ Eða þessi: „Hva!!! Voðaleg gredda er þetta, er þetta nú ekki komið gott? Þú ferð nú ekki að koma með fleiri er það?“ Að lokum sú allra dónalegasta að mínu mati: „Á svo ekki að drífa í því núna að láta taka sig úr sambandi?“
Ég viðurkenni að lengi vel hélt ég að ég væri ein um að fá svona háðsglósur þar sem ég átti öll mín sex börn með fimm mönnum. Ég meira að segja passaði mig alltaf á að koma með hæðin og hnyttin svör til baka eins og t.d. að ég væri nú bara svo óttalega vergjörn því þannig tókst mér stundum að verja mig og slá vopnin úr höndum allra þeirra sem sáu sér ekki almennilega fært að einfaldlega óska mér til hamingju.
Þegar þessi frjóa og megaflotta mamma setti inn sýna tilkynningu þá varð ég fyrst og fremst glöð fyrir hennar hönd, skrifaði svo fallega hamingjuósk til hennar og fór síðan samviskusamlega yfir allar aðrar skrifaðar kveðjur líkt ég væri komin í starf siðapostula. Ég var ákveðin í að kveða allar hæðniskveðjur í kútinn. Til þess kom þó ekki þó vissulega ein og ein athugasemd skrifuð undir rós um hvað hún væri nú eiginlega að pæla, væri á stjaldri hér og þar þá virtist vera sem fólk vandaði sig meira samskiptum sínum við hana heldur en í fyrri skiptin (og þá meina ég auðvitað eftir þriðja barn).
Ég mundi svo skyndilega eftir því að það er ekkert svo langt síðan hún skrifaði status á fésbókina sína um hversu leiðinlegt henni fyndist það að þurfa stöðugt að vera að afsaka tilveru barna sinna svo að líklega voru kveðjurnar vandaðri fyrir vikið. Það er samt nákvæmlega þetta sem mér leiðist svo mikið og hefur fengið mig nánast til að langa að fara í felur með annars þessa miklu gleði sem nýtt barn gefur. Það að fólk geti ekki almennilega glaðst með mér, að það virkilega finni hjá sér þörf á að gagnrýna, dæma, efast um getu mína til að eignast þessa frábæru einstaklinga sem börnin mín sex eru og að í staðinn fyrir að fá að lesa hlýjar kveðjur um þungun mína þurfi ég að reyna að brosa með háðsglósunum sem margir skrifa í staðinn fyrir hamingjuóskir.
Það er svo oft talað um dónaskapinn sem pör og einstaklingar sem ekki er barna auðið fá yfir sig með spurningum um af hverju þau séu ekki enn komin með börn og fleira í þeim dúr en trúið mér, þetta er sko alls ekki minna dónalegt. Að þurfa sífellt að vera að réttlæta tilveru barnanna sinna, reyna að hlægja með hæðninni sem hellist yfir mann og að svara spurningu á borð við hvort ég ætli ekki að skella mér í erfiða aðgerð til að loka og læsa á að fleiri litlir einstaklingar fái að ferðast um mín leggöng er til háborinnar skammar.
Ég held í alvörunni að fólk átti sig ekki á þessu og sé ekki viljandi að reyna að særa okkur barnmörgu foreldranna en þetta er afskaplega vanhugsað hjá ykkur elskurnar. Hættum að skipta okkur af hlutum sem okkur koma ekki við, hættum að dæma, og ef við sjáum okkur ekki fært að hendi inn fallegri kveðju sem er laus við hæðni og heimskulegar spurningar, sleppum því þá frekar. Hver er annars ráðlagður barnsskammtur á fjölskyldu? Ég er hér með talsmaður barnmarga mæðra og veit að blessun vex með barni hverju. Þangað til næst, lifið heil, elskið friðinn og strjúkið kviðinn.