fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2024

10 óþarfa vörurnar mínar fyrir nýbakaðar mæður

Ritstjórn Bleikt
Fimmtudaginn 27. júlí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég gerði færslu í vetur sem var listi yfir 10 uppáhalds vörurnar mínar fyrir nýbakaðar mæður. Nú er Embla dóttir mín orðin rúmlega 6 mánaða og þá er margt á listanum dottið út og nýtt komið í staðinn af því þarfirnar hennar eru auðvitað alltaf að breytast.

Ég var svo að taka til í dótinu hennar um daginn og fara yfir þá hluti og föt sem ekki er verið að nota lengur og sá þá að það var alveg sumt sem við keyptum og héldum að við myndum alveg nota helling sem var svo bara aldrei notað. Ég ákvað því að skella í lista yfir 10 óþarfa vörur fyrir nýbakaðar mæður. Auðvitað eru allir misjafnir, bæði foreldrar og börn en þetta er allavega það sem við notuðum ekki eða keyptum of mikið af.

1.Angel Care hlustunartæki

Screen Shot 2017-07-25 at 12.14.50

Áður en Embla fæddist var þetta eitt af því sem ég var æstust í að kaupa af því ég var svo ótrúlega hrædd við vöggudauða og var til í að kaupa allt sem gæti hjálpað mér að minnka þá hræðslu. Þetta hlustunartæki er með plötu sem fer undir dýnuna í rúminu og nemur andardrátt barnsins og lætur þig vita ef barnið hættir að anda. Málið er hins vegar að það er ekki hægt að nota þetta tæki í vöggu eða vagni af því tækið þarf að vera staðsett rétt og tengt rafmagni og því ekki hægt að nota það á ferðinni. Fyrstu vikurnar svaf Embla útum allt, í babynest, í vöggunni, í fanginu á okkur og í vagninum og því notuðum við þetta ekkert. Það var ekki fyrr en hún var 5 mánaða sem hún fór að sofa í rimlarúminu í sínu eigin herbergi að við hefðum getað byrjað að nota þetta en þá var hún farið að hreyfa sig svo rosalega mikið að tækið er mun minna marktækt. Hlustunartækið sjálft er þó hægt að nota án dýnunnar en það er alls ekki nógu vel hannað. Það dregur mjög stutt, svo stutt að við gátum varla notað það niðri í stofu ef Embla var uppi í sínu herbergi. Eins er tækið sem á að vera hjá barninu ekki með hleðslurafhlöðum heldur á það að vera tengt í rafmagn þannig að það hentar rosalega illa til að nota þegar börnin sofa úti í vagni. Við gáfumst því fljótt uppá því og keyptum okkur Neonate tækið sem við erum alveg ótrúlega ánægð með. Með næsta barn mun ég skoða að kaupa frekar Snuza heldur en Angel Care en það er lítið stykki sem er smellt á bleiuna og nemur andardrátt barnsins og er hægt að nota hvar sem er.

 

2.Sérstakt skiptiborð

Screen Shot 2017-07-25 at 12.16.45

Þegar ég byrjaði að hanna herbergið hennar Emblu fannst mér algjört möst að vera með skiptiborð inni hjá henni. Ég ákvað þó að kaupa ekki hefðbundið skiptiborð heldur keypti MALM kommóðu í IKEA og skiptidýnu úti í Boston með sætu áklæði. Ég held að við höfum skipt á henni svona max 10 sinnum á þessu skiptiborði. Við vorum miklu meira með hana niðri í stofu og skiptum bara á henni í sófanum á svona ferðaskiptidýnu heldur en að fara alltaf með hana upp að skipta á henni. Ég er mjög glöð að ég keypti frekar kommóðu og skiptidýnu ofaná af því kommóðan var alveg nauðsynlegt til að geyma öll fötin hennar í en ég mæli ekki með því að kaupa sérstakt skiptiborð af því oftast er maður með litlu krílin útum allt og nennir ekki að fara alltaf inní herbergi til að skipta á.

 

3.Hlýr poki í bílstólinn

Screen Shot 2017-07-25 at 12.18.21

Það voru rosalega margir sem voru að mæla með sérstökum poka í bílstólinn þegar ég var ólétt svo ég ákvað að fjárfesta í einum slíkum í Carters. Við komumst aldrei uppá lag með að nota hann. Í fyrsta lagi var Embla bara 2500g þegar hún fæddist svo hún alveg týndist í þessum poka fyrstu mánuðina og mér fannst alltaf svo mikið vesen að láta hana passa rétt i pokann og finna öll böndin til að binda hana að ég var miklu fljótari bara að klæða hana í flísgalla og skella henni í stólinn. Það er samt alveg mögulegt að þessi bílstólapoki hafi bara ekki verið nógu góður og að það séu til einhverjir betri en ég væri ekki til í að eyða miklu í það og myndi frekar nota bara hlýjan galla í staðinn og spara mér peninginn.

 

4.Hellingur af samfellum í öllum stærðum og gerðum

Screen Shot 2017-07-25 at 12.19.14

Þetta var eitt af því sem allir töluðu um að væri nauðsynlegt að eiga nóg af, að það væri aldrei til nóg af samfellum. Ég ákvað því að kaupa vel af samfellum Í Carters þegar ég var þar þegar ég var ólétt og keypti alveg margar samfellur í hverri stærð og margar týpur í hverri stærð, síðerma, stutterma og ermalausar. Núna er staðan þannig að meira en helminginn af samfellunum sem ég keypti náði ég aldrei að nota. Ég raðaði þeim öllum upp voða fínt en svo tók ég alltaf bara þessar fremstu og af því maður var alltaf að þvo af henni þá voru þetta alltaf sömu samfellurnar fremst. Ég hugsa að ég hefði komist upp með að eiga bara 6 samfellur í hverri stærð en svo er auðvitað mismunandi hvað börn æla og slefa og annað en fyrir okkur hefðu 6 verið alveg nóg. Annað sem ég rak mig á var að ég keypti mest af síðerma samfellum af því ég vildi nú að litla krílinu yrði hlýtt en komst fljótt að því að það er miklu erfiðara að klæða þau í föt yfir samfellurnar ef þær eru síðerma af því ermarnar á samfellunni eru bara fyrir og dragast lengt upp á handlegginn svo maður þarf að grafa eftir þeim undir erminni á peysunni sem fellur ekki vel í kramið hjá pirruðu kríli sem finnst leiðinlegt að láta klæða sig.

 

5.Stuðningsbelti/buxur 

Screen Shot 2017-07-25 at 12.21.19

Ég keypti mér svona stuðningsbelti/buxur til að nota eftir fæðinguna og hélt að það væri algjör snilld. Bæði til þess að líta betur út og eins til að hjálpa líkamanum að ganga betur saman og veita stuðning við skurðinn minn eftir keisaraskurðinn. Ég keypti mitt af erlendri síðu sem heitir bellefit.com og lofaði einhverjum svaka árangri og before and after myndirnar voru mjög spennandi. Ég byrjaði að troða mér í þetta daginn eftir að Embla fæddist og mér fannst þetta sko ekkert hjálpa. Þetta var í fyrsta lagi mjög óþægilegt og mér fannst ég bara meiri um mig í græjunni heldur en án hennar og fannst þetta skerast inn í mig á ólíklegustu stöðum. Það var líka brjáluð vinna að klæða sig í þetta og maður var alveg að kafna úr hita í þessu.  Þetta hjálpaði skurðinum mínum ekkert og mér fannst ég vera næstum með meiri verki í þessu heldur en ekki. Ég keypti mér í staðinn buxur frá merki sem heitir UpSpring sem heita C-panty og eru hugsaðar fyrir konur sem hafa farið í keisaraskurð. Þær eru háar upp,  úr mjúku en stífu efni og eru með innbyggðum silikonbút akkúrat þar sem skurðurinn er þannig að þær verja skurðinn fyrir nuddi og óþægindum og eiga að hjálpa til við gróanda. Þær eru meira en helmingi ódýrari og mun heppilegri græja.

 

6.Mörg teppi

Screen Shot 2017-07-25 at 12.22.10

Teppi voru enn eitt dæmið um hlut sem allir sögðu að maður þyrfti að eiga nóg af. Ég hlýddi þessu samviskusamlega eins og öðrum ábendinum og birgði mig upp af teppum af öllum gerðum úti í Boston. Það kom þó fljótlega í ljós að 1-2 teppi er yfirdrifið nóg og ég notaði langmest eitt teppi sem var mjúkt ljósbleikt teppi frá Ralph Lauren. Ég á hinsvegar alveg 10 teppi í öllum þykktum og stærðum sem eru enn ofaní skúffu og ég hef ekkert þurft að nota. Ég mæli með því að eiga eitt hlýtt teppi og mögulega eitt aðeins þynnra og láta það duga.

 

7.Nefsuga

Screen Shot 2017-07-25 at 12.22.47

Ég keypti auðvitað nefsugu áður en Embla fæddist eins og örugglega stærsti hlutinn af foreldrum gera. Ég komst þó fljótt að því að þessi suga gerði nákvæmlega ekki neitt nema trylla barnið og sogaði ekki upp eitt einasta hor. Ég fékk svo að heyra frá barnalækni að það væri miklu sniðugra að láta saltvatnsdropa í nebbann á litlum krílum með kvef heldur en að erta nebbann með nefsugu og mér hefur fundist það virka mjög vel og mæli frekar með dropunum heldur en sugunni.

 

8.Sérstök brjóstagjafaföt

Screen Shot 2017-07-25 at 12.25.14

Ég keypti mér alveg slatta af sérstökum brjóstagjafafötum þegar ég var ólétt og hélt að það væri alveg nauðsynlegt. Ég fór aldrei í eina einustu flík af þessum flíkum enda fannst mér þær allar eitthvað ótrúlega óklæðilegar og ljótar. Mér fannst ég bara alveg geta verið í mínum venjulegu fötum yfir brjóstagjafahaldarann. Mér fannst allar þessar flíkur vera með einhverju sérstöku þykku efni yfir brjóstin og þegar ég var komin í gjafahaldarann og gjafahlýrabolinn og gjafabolinn þá var ég bara komin með þvílíkt þykkildi af efnum yfir brjóstin að það var full vinna að fletta þessu af þegar litla krílið var svangt. Mín reynsla var allavega sú að það er mjög mikilvægt að vera með góðan gjafahaldara en önnur föt eru eitthvað sem þú þarft ekkert endilega að eyða peningum í.

 

9.Allskonar hjálpartæki við brjóstagjöf

Screen Shot 2017-07-25 at 12.26.03

Ég mæli með því að bíða með að kaupa allskyns hjálpartæki fyrir brjóstagjöf þangað til þú sérð hvernig brjóstagjöfin gengur og þá hvort þú þarft á þessum hlutum að halda. Ég var búin að kaupa allskonar kælipúða fyrir geirvörtur, 3 tegundir af mexikanahöttum, sérstakt silikon eða gervihúð til að setja yfir sárar geirvörtur, mjólkursafnara, geirvörtuformara og ég veit ekki hvað og hvað og ég notaði næstum ekkert af þessu. Ég var mjög heppin og lenti ekki í miklu veseni með mínar geirvörtur og því var stór hluti af þessum græjum óþarfur. Ég þurfti að leigja mér brjóstapumpu í Móðurást þegar við komum heim af fæðingardeildinni og ég fékk alveg frábæra þjónustu hjá þeim varðandi hvaða aukahluti ég þyrfti að kaupa og næst ætla ég held ég bara að bíða og sjá og kaupa eftir þörfum.

 

10.Bílstóll sem er fallegur en alltof þungur!

Screen Shot 2017-07-25 at 12.27.19

Við erum með bílstól frá Emmaljunga sem heitir First Class og er ótrúlega fallegur, úr hvítu leðri og í stíl við barnavagninn okkar frá Emmaljunga. Það er þó einn alveg rosalega stór galli við þennna stól og það er hvað hann er fáránlega þungur. Bara stóllinn sjálfur er 5 kg og þá á eftir að setja barnið í hann. Þetta slapp alveg til að byrja með en eftir því sem barnið þyngist því erfiðara verður þetta og þá er það sko alls ekki þess virði að bílstóllinn sé rosa flottur ef þú getur varla loftað honum. Við vorum með stólinn í afmælisboði um daginn og hittum vini okkar sem eiga Maxi Cosi stól og þvílíkur munur að halda á honum og þessum. Ég mæli allavega algjörlega með því að pæla í þyngdinni á stólnum áður en þú velur þér bílstól.

 

hronn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fordæmir sérmeðferð fyrir háttsetta hjá borginni – „Það er ekki sama Jón og séra Jón“

Fordæmir sérmeðferð fyrir háttsetta hjá borginni – „Það er ekki sama Jón og séra Jón“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Byrjunarlið Manchester United og Fulham – Mazraoui byrjar

Byrjunarlið Manchester United og Fulham – Mazraoui byrjar
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu: Ekki verið að leggja af samræmd próf heldur stórauka vægi þeirra og virkni

Forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu: Ekki verið að leggja af samræmd próf heldur stórauka vægi þeirra og virkni
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Indverskir læknar boða verkfall vegna hrottalegs morðs

Indverskir læknar boða verkfall vegna hrottalegs morðs
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Úrskurðaður í farbann vegna gruns um hópnauðgun – „Á vettvangi var brotaþoli í miklu uppnámi og grét mikið“

Úrskurðaður í farbann vegna gruns um hópnauðgun – „Á vettvangi var brotaþoli í miklu uppnámi og grét mikið“
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Telja Hollywood-stjörnuna Blake Lively á barmi slaufunar

Telja Hollywood-stjörnuna Blake Lively á barmi slaufunar
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

United lætur Eriksen vita að hann geti farið

United lætur Eriksen vita að hann geti farið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sjá fram á tvöföldun afborgana af láni eftir vaxtabreytingu – „Ég veit ekki alveg hvort ég og konan ráðum við þessa hækkun“

Sjá fram á tvöföldun afborgana af láni eftir vaxtabreytingu – „Ég veit ekki alveg hvort ég og konan ráðum við þessa hækkun“