Team Spark er kappaksturslið innan Háskóla Íslands sem ár hvert hannar og smíðar rafknúinn kappakstursbíl frá grunni með það að markmiði að keppa á Formúla Stúdent keppnum úti í heimi. Liðið samanstendur aðallega af verkfræðinemendum Háskóla Íslands en Formúla Stúdent er stærsta verkfræðinema keppni í heiminum. Þangað koma lið frá bestu háskólum í heimi og etja kappi í akstri, hönnun og viðskiptahugmynd á bak við afrakstur vetrarins.
Nú á næstu dögum er liðið að fara út með sinn sjötta bíl, TS17 sem ber heitið LAKI, á Formúla Stúdent keppnirnar en í þetta sinn keppir liðið á Formula Student Italy og Formula Student Austria. Mikil tilhlökkun er í liðinu og fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með á Facebook síðu liðsins og snapchat aðganginum team.spark.
Til að ýta undir spennu fyrir komandi keppnum þá frumsýndi liðið heimildarmynd um árangur liðsins í fyrra en liðinu tókst í fyrsta sinn að taka þátt í aksturhluta keppninnar. Vegna ungs aldurs liðsins verður það að teljast gríðarlega góður árangur vegna þeirra strangra öryggiskrafna sem gerðar eru til rafmagnsbíla á keppnunum. Sjón er sögu ríkari og fékk Bleikt leyfi frá Team Spark til að birta heimildarmyndina. Sturla Holm Skúlason á heiðurinn bak við þessa heimildarmynd.