Karly Tophill ákvað að framkvæma hálfgerða tilraun á þrettán ára gömlum syni sínum. Karly var þeirrar skoðunar, eins og foreldrar margra annarra unglinga, að sonur hennar, Dylan, eyddi of miklum tíma í símanum. Karly ákvað því að taka til sinna ráða og bannaði Dylan að nota farsíma í heilt ár. Óhætt er að segja að hún hafi séð miklar breytingar.
Í samtali við Mail Online segir Karly að innan sex vikna hafi hún tekið eftir umfangsmiklum breytingum. Hún segir að sonur hennar hafi virst hamingjusamari, orkumeiri, gengið betur með heimavinnuna. Þá hafi hann verið mælskari og jafnvel boðið til að hjálpa henni með heimilisverkin.
„Mér fannst þetta erfitt fyrst en símaleysið er alls ekki svo slæmt“
Karly, sem er 41 árs, hvetur aðra foreldra til að feta í sín fótspor þó hún hvetji þá ekki endilega til að grípa til jafn róttækra aðgerða og hún gerði. Hvetur hún foreldra – og fjölskyldur – til að hafa einn símalausan dag í viku.
Karly segir að Dylan hafi varið um það bil tveimur klukkustundum á dag, eftir skóla, í símanum. Hann dreif sig að klára heimanámið til að geta farið í símann þar sem hann spilaði tölvuleiki eða hékk á samfélagsmiðlum. Og á morgnana var staðan svipuð og gekk Karly oft erfiðlega að fá son sinn til að gera sig reiðubúinn fyrir skólann.
Það var svo í október að Karly ákvað að grípa til róttækra aðgerða. Hún tók símann af Dylan og sagði við hann að hann fengi hann ekki aftur fyrr en eftir eitt ár. Óhætt er að segja að þessi ákvörðun Karly hafi ekki vakið mikla hrifningu hjá Dylan, að minnsta kosti ekki til að byrja með, en hann hafi þó verið fljótur að venjast símaleysinu.
Karly segir að Dylan sakni símans ekki mikið; hann eyði meiri tíma en áður í heimanámið, eyði meiri tíma með fjölskyldunni og leiki oftar við yngri bróður sinn sem er tíu ára gamall.
Karly segir að þó hún hafi ætlað að láta tilraunina endast í heilt ár muni Dylan fá aðgang að símanum sínum upp úr áramótum. Og hvorki Karly né Dylan búast við því að hann fari aftur í sama farið þegar hann fær símann sinn aftur.
„Mér fannst þetta erfitt fyrst en símaleysið er alls ekki svo slæmt. Ég hef núna miklu meiri tíma til að einbeita mér að öðrum hlutum,“
segir Dylan. Karly segist sjálf, nú þegar tilraunin hefur staðið yfir í nokkurn tíma, vera meðvitaðri um þann tíma sem fer í farsímann. „Foreldrar og fullorðið fólk eru ekki betri en börnin. Ég gerist sjálf sek um að eyða of miklum tíma í símanum,“ segir Karly sem sjálf hefur sýnt hefur syni sínum stuðning og notað símann sinn minna en áður. „Þetta var góð ákvörðun og ég hvet aðra til að prófa þetta.“
Birtist fyrst á DV.is