Við hefðum líka farið að gráta eftir að hafa reitt fram 30 þúsund krónur fyrir sérsniðinn kjól sem lítur út fyrir að hafa verið settur í tætarann og festur saman með límbyssu. Malexa Lewis, bandarísk unglingsstelpa, hafði pantað kjólinn hjá hönnuði og hugðist hún mæta í honum á lokaballið í skólanum sínum.
Upphaflega hafði hana langað í kjól sem hún fann á Instagram. Þar sem hann var ekki fáanlegur hafði hún samband við hönnuð sem tók að sér að sérsníða á hana kjól í svipuðum stíl. Útkoman var hins vegar algjört stórslys.
„Malexa vissi ekki hvernig kjóllinn myndi líta út. Hún var niðurbrotin og grét þegar hún sá þennan kjól,“ segir móðir hennar sem deildi myndinni á Facebook. Til allrar hamingju fékk Malexa hjálp frá kunningja sem færði henni fallegan kjól til að klæðast á ballinu.