Rúna Sævarsdóttir býr með manninum sínum og þremur börnum í Noregi. Hún stundar fjarnám í sálfræði við Háskólann á Akureyri og er þar að auki bloggari á Öskubuska.is. Hún skrifaði pistil um að verðlauna góða hegðun barna sem birtist fyrst á Öskubuska.is og gaf Bleikt góðfúslegt leyfi að birta hann hér fyrir lesendur okkar.
Ég og vinkona mín áttum gott spjall um daginn. Eins og svo oft áður leiddist umræðan út í barna uppeldi. Við erum sammála því að margt hefur þróast til hins betra í þeim efnum í gegn um tíðina. Áður fyrr tíðkaðist mikið að „stytta sér leið“ í uppeldinu. Þá er ég að tala um þegar ýmsum aðferðum var beytt til þess að ná fram æskilegri hegðun á sem hraðasta máta. Til dæmis með því að hræða börn með grýlum, rassskella eða ógna á annan hátt. Sem betur fer er hugsunarmátinn búinn að breytast þegar kemur að uppeldi. Við höfum það flest öll að markmiði að ala upp sjálfstæða og heilsteypta einstaklinga sem eru tilbúnir að takast á við lífið.
Til þess að ná þessu markmiði beitum við uppbyggilegum aðferðum. Við hvetjum börnin okkar til dáða og verðlaunum þau fyrir góða hegðun. En eigum við að verðlauna alla góða hegðun?
Ég hef oft staðið sjálfa mig að því að verðlauna hegðun sem er í rauninni ekki „góð“ hegðun heldur bara venjuleg hegðun. Þá meina ég að lofa verðlaunum fyrir að haga sér almennilega í búðinni, fyrir að týna upp leikföng eða eitthvað þess háttar. Við vinkonurnar fórum að velta fyrir okkur hvort að þetta væri góð þróun eða hvort við værum ekki komin aðeins of langt frá hinum gullna meðalveg. Á það að vera einhver valkostur að haga sér eins og maður á meðan maður gengur í gegn um verslun og þarf að verðlauna þá hegðun sérstaklega þegar hún á sér stað? Það sama gildir þegar kemur að því að ganga frá leikföngunum sínum. Getur verið að þetta sendi röng skilaboð? Skilaboð um að það megi haga sér eins og bavíani í búðinni og þú verðir að fá verðlaun ef þú átt að haga þér eins og maður?
Nú er ég alls ekki að segja að það eigi aldrei að verðlauna börn og að sjálfsögðu geta verðlaun virkað fyrir börn sem þykir mjög krefjandi að fara í búðir. Ég held að maður þurfi samt sem áður að vera svolítið vakandi yfir því hvaða og hvernig hegðun maður er að verðlauna og setja sanngjarnar kröfur á börnin.
Pistillinn birtist fyrst á Öskubuska.is