Grunlausir farþegar neðanjarðarlestarinnar í New York duttu heldur betur í lukkupottinn á miðvikudaginn. En þá ákváðu Miley Cyrus og Jimmy Fallon að klæða sig í dulargervi og þykjast vera götusöngvarar á lestarstöðinni Rockefeller Center.
„Enginn veit að þetta er að fara að gerast. Enginn veit að þetta er Miley Cyrus,“
sagði Jimmy Fallon um gjörninginn. Þau voru með hárkollur og kúrekahatta og til að setja alveg punktinn yfir i-ið þá settu þau upp sólgleraugu. Þau fóru í karakter og sungu lagið „Jolene“ með Dolly Parton.
Þó að Miley hafi reynt að fela sig á bak við sólgleraugun þá var röddin hennar þekkjanleg um leið og fljótlega voru þau komin með stóran áhorfendahóp. Þau enduðu með að taka af sér hárkollurnar og syngja annað lag fyrir spennta farþega sem sungu með. Jimmy Fallon og Miley Cyrus ræddu síðan um uppátækið í þættinum hans en þetta var í fyrsta skipti sem Miley fór í neðanjarðarlest.
Miley söng svo tvö lög fyrir gesti Jimmy Fallon, „Malibu“ og nýjasta lagið sitt „Inspired.“ Horfðu á stórglæsilegan flutning hennar hér fyrir neðan.