fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025

Hrós eða ekki hrós? Það besta sem við getum sagt við börnin okkar er „Þér tókst það“

Ritstjórn Bleikt
Fimmtudaginn 15. júní 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppeldi getur verið svo öfugsnúið! Eftir að ég kynntist RIE aðferðinni þá byrjaði ég að sjá það betur og betur hvað margt af því sem við gerum í daglegum samskiptum við börnin okkar, oftast atriði sem við meinum virkilega vel og sjáum ekkert athugavert við er mögulega ekki að hafa þau áhrif á börnin okkar sem við erum að vonast eftir.

Mynd/Kristín Maríella Friðjónsdóttir

Í greininni “Praising Children, Risking Failure” fjallar Janet Lansbury (Respectful Parenting gúrú og átrúnaðargoðið mitt) um niðurstöður rannsóknar Columbia háskóla á hrósi. Í þessari áhugaverðu rannsókn var börnum var skipt upp í 2 hópa, og báðir hóparnir fengu það verkefni að takast á við röð af þrautum. Í öðrum hópnum var síðan börnunum hrósað fyrir það að vera klár; “You must be smart at this” eða “þú ert mjög góður/klár í þessu” var sagt við þau þegar þau voru að takast á við þrautina. En hinum hópnum var hrósað fyrir vinnuna sem þau höfðu sett í verkefnið; “you must have worked really hard” eða “þú vannst hörðum höndum að verkefninu”. Munurinn á hópunum tveimur var rosalegur!

Þegar kom að næsta verkefni sem börnin áttu að takast á við máttu þau velja sjálf hvort það yrði erfiðara eða auðveldara en það fyrsta. Krakkarnir sem fengu að heyra að þau væru klár eða gáfuð völdu sér að takast aftur á við auðvelt verkefni á meðan hinir, sem fengu hrós fyrir að reyna og leggja á sig, völdu erfiðara verkefnið og voru til í að prufa hvort þau gætu tekist á við eitthvað meira krefjandi.

í síðasta fasa rannsóknarinnar var öllum börnunum gefið verkefni sem var mjög erfitt, ekkert barnanna náði að klára verkefnið. Börnin sem fengu hrós fyrir að leggja á sig langaði þrátt fyrir það að prufa verkefnið aftur, þeim fannst það spennandi og þeim leið eins og þau gætu bætt sig á meðan börnunum sem var hrósað fyrir gáfnafar eða það að vera klár urðu fyrir miklum vonbrigðum, gáfust upp og vildu hætta í verkefninu.

Vá, mér finnst þetta svo merkilegt!

Í greininni er líka fjallað um ungan strák, Thomas, sem er með greindarvísitölu sem fellur í topp 1%, sem sagt alveg svakalega há IQ EN hann hefur ekkert sjálfstraust.

Honum er lýst þannig að hann gefst vanalega mjög fljótt upp á verkefnum, ef hann nær ekki að klára eitthvað eða takast eitthvað í fyrstu tilraun þá reynir hann ekki aftur. Svo er hann mjög óviljugur til að prufa eitthvað nýtt.

Alla sína ævi hefur hann fengið að heyra það hvað hann sé klár og gáfaður, en hann hefur ekkert frumkvöðlaeðli eða hugrekki. Þrátt fyrir að það eigi enga stoð í raunveruleikanum efast hann um sjálfan sig á öllum sviðum. Hann er skíthræddur við það að mistakast.

Það virðist vera að það sem við gerum mörg dags daglega, í þeirri meiningu og trú að við séum að hvetja börnin okkar áfram, gefa þeim sjálfstraust og staðfestingu svo þau verði mögulega enn þá betri í einhverju sé mögulega að hafa þveröfug áhrif.

Í RIE þá förum við nefnilega aðra leið að því að hrósa og hvetja börnin okkar áfram.

Mynd/Kristín Maríella Friðjónsdóttir

Speglun

Í stað þess að hrósa hefðbundið;  Vá æðislegt!, Flottur!, Þú ert svo klár!, En hvað þú ert falleg/ur, Þú ert svo góð að dansa, Vá hvað þetta er falleg mynd, Flott hjá þér!

Þá segjum við einfaldlega það sem við sjáum. Við speglum til baka til barnsins það sem það gerði eða er að gera, án þess að leggja okkar dóm á það sem um ræðir.

Mér finnst æðislegt að byrja setningar á “ég sé!”;

Ég sé! Þú kubbaðir stóran turn!

Þú ert í bláum kjól, þú klæddir þig alveg sjálf í hann

Þú ert að dansa og snúa þér í marga hringi – ahh, ég sé, svo seturðu annan fótinn hátt upp í loft

Þú málaðir mynd! Ég sé þú notaðir mikið af fjólubláum, og þarna eru gulir hringir!

Þú söngst allt lagið og ert búin að leggja allan textann á minnið!

Stundum er einfaldlega “Ég sé þig 🙂 “ það einlægasta og sterkasta sem við getum sagt við barn.

Þessar setningar hljóma kannski svolítið þurrar fyrir þá sem eru að heyra um speglun í stað þess að hrósa í fyrsta skipti en treystið mér, þvert á móti þá krefst speglun þess að við séum í tengingu, “á staðnum” með athygli og tökum okkur tíma til þess að segja eitthvað um það sem barnið er að gera. Börnin fá með þessu staðfestingu á því að við virkilega sjáum þau. Við segjum þessar setningar með einlægni, brosum hlýtt og erum stolt af þeim – það skín alltaf í gegn.

Við tölum um og hrósum fyrir það að reyna og vinnuna sem liggur að baki því sem þau gera;

“Ég sá þú vandaðir þig mikið við að mála þessa mynd” – “þú reyndir aftur og aftur að klifra upp klifurgrindina og svo tókst þér það!” – “það var erfitt að renna upp rennilásnum en þér tókst það alveg sjálfum!” – “þú vannst hörðum höndum að..”

“Þér tókst það!”

Það besta sem við getum sagt við börnin okkar er  “þér tókst það!” (á ensku “you did it!), oft með viðbótinni “þú hlýtur að vera stolt af þér/ég sé þú ert stolt af þér”. Takið eftir því að það er ekki það sama og að segja “þú mátt vera stolt af þér.. “ (hver erum við annars að gefa þeim leyfi til þess eða ekki?)

eða “ég er stolt af þér”, við viljum nefnilega ekki að þau standi sig vel eða klári verkefni til þess að gera okkur stolt, við viljum að þau séu stolt af sjálfum sér og geri hluti fyrir sjálf sig.

 

Hvaðan kemur drifkrafturinn?

Í RIE er mikil áhersla lögð á það að hjálpa börnum að varðveita sinn innri drifkraft (sem þau eru fædd með!). Hvatningin til þess að standa sig eða gera hlutina vel á að koma frá barninu sjálfu en ekki að það sækist í utanaðkomandi samþykki, viðbrögð eða hrós.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það að innri drifkraftur eða metnaður sem kemur frá manni sjálfum er miklu sterkari og endist lengur en metnaður sem er drifinn áfram af utanaðkomandi þáttum eins og verðlaunum, viðurkenningu eða hefðbundnu hrósi.

RIE nálgunin leggur áherslu á það að skoða vinnuna sem barn leggur í verkefni frekar en einblína á útkomuna og reyna síðan að leggja ekki mat eða dóm á það sem barnið gerir, þó að um jákvætt mat sé að ræða!

Ef barnið er að sýna okkur mynd sem það málaði þá er það í rauninni ekki okkar að segja eitthvað eins og “vá! en fallegt hjá þér!” því hver erum við að dæma? Af hverju að einblína á útkomuna? Er það ekki í rauninni afstætt hvort eitthvað sé fallegt eða ekki?

Ég meina, hver erum við að dæma um það hvort bláa myndin sé falleg frekar en myndin sem er öll svört?

Það að mála á að snúast um eitthvað allt annað en það hvernig myndin lítur að lokum út. Börn hafa miklu meiri áhuga á því að rannsaka það og skoða hvernig litir, málning og þess skonar efniviður virkar heldur en að framleiða eitthvað sem lítur vel út.

“Hvað gerist ef ég blanda litunum saman? Get ég málað með puttunum? Hvað gerist ef ég set tvö blöð saman með málningu milli?” – Þetta eru dæmi um hugsanir og spurningar sem við viljum að barnið sökkvi sér í. Við viljum að barn sé óhrætt við að prufa sig áfram og fái útrás fyrir sköpunargleði. Kannski vill barnið hella öllu vatninu í glasinu yfir myndina, allt í lagi! Það er kannski ekki “FLOTT!” en það er spennandi og áhugavert, er það ekki?

Barn sem er heltekið af því hvort það muni uppskera hrós eða samþykki frá umhverfinu þorir minna að taka áhættur eða prufa sig áfram og á erfiðara með að gleyma sér í leik heldur en barn sem vinnur út frá sinni innri áhugahvöt og fær frelsi til að sökkva sér í tilraunastarfsemi í leik, óháð útkomu!

 

Hefðbundið hrós truflar flæði leiks.

Stór þáttur RIE nálgunarinnar er að styðja eins og við getum við sjálfstæðan leik og við berum mikla virðingu fyrir mikilvægi leiks. Við viljum að börn leiki sér á sínum forsendum og þurfum að passa okkur að taka ekki yfir eða láta leikinn byrja að snúast um okkar viðbrögð. Það þýðir að halda aftur af miklum viðbrögðum eða hrósi þegar barn lítur t.d. upp á okkur í miðjum leik eða segir “mamma sjáðu hvað ég gerði!” – í stað þess að segja “vááá!! Þetta er ótrúlega flottur turn hjá þér! whoohoo! Æðislegt!” þá speglum við frekar og segjum eitthvað eins og – “Ah ég sé, þú kubbaðir stóran turn:)” “þú settir alla karlana ofan í bílinn”.

Sjáið þið muninn?

Þegar við hrósum of mikið fyrir ákveðið atriði í leik þá sendum við oft óafvitandi þau skilaboð að leikurinn sé búinn, að markmiðinu sé náð (turninn er tilbúinn! til hamingju!). En með því að segja það sem við sjáum á þann hátt sem RIE mælir með þá höldum við leiknum opnum og barnið er líklegra til að halda áfram að leika sér. Kannski var loka-markmið barnsins ekkert að kubba stóran turn, kannski ætlaði barnið sér að ýta turninum niður, athuga hvernig kubbarnir myndu detta í jörðina og mögulega raða kubbunum í hring og búa til grindverk í kringum eitthvað!

Staðreyndin er sú að við vitum ekki hvað barn hefur í huga þegar það er í miðjum leik en það sorglega er að við fáum heldur ekki að uppgötva það þegar við tökum yfir og stöðvum flæðið með of sterkum viðbrögðum.

Þökkum þeim fyrir

Við þökkum börnunum okkar fyrir þegar þau eru hjálpleg. Í staðinn fyrir að segja “dugleg!” eða “flott hjá þér!” þegar þau setja diskinn sinn í uppþvottavélina óumbeðin þá þökkum við þeim einfaldlega fyrir eins og við myndum þakka vini eða fjölskyldumeðlimi fyrir að aðstoða okkur “takk fyrir að taka diskinn af borðinu, það er mjög hjálplegt :)”.

Enn og aftur, við viljum ekki að þau séu hjálpleg fyrir okkur – við viljum að þau séu hjálpleg því þau vilja það sjálf, vilja vera partur af heild þar sem allir hjálpast að, vilja gleðja okkur því þeim líður vel þegar við erum þakklát fyrir eitthvað sem þau taka uppá að gera.

Við myndum aldrei segja “dugleg/ur!” við maka okkar ef hann/hún færi út með ruslið.

 

Prufið bara!

Það eru eflaust einhverjir sem klóra sér í hausnum yfir þessum frösum og sjá það kannski ekki fyrir sér að tala svona við barnið sitt, ein á námskeiði hjá mér lýsti yfir raunverulegum kvíða og sorg yfir því að hugsa sér að hætta að hrósa barninu sínu á hefðbundinn hátt, að segja “duglegur!” og sýna stór viðbrögð. Hún var svo hrædd um að það myndi særa strákinn sinn, að svona breyting í samskiptum væri einfaldlega of mikil fyrir hann.

En börnin okkar kunna miklu frekar að meta svona viðbrögð heldur en hefðbundin “VÁ, FRÁBÆRT!” hrós. Þessi einföldu hrós sem við köllum upp yfir okkur en hafa enga raunverulega þýðingu.

Það er mjög verðmætt fyrir barn að finna fyrir því að við sjáum það, tökum eftir því sem það er að gera og vinnunna sem liggur að baki einhverju sem það gerði.

 

Hver eru áhrifin?

Með því að hrósa á þennan hátt þá eflum við sjálfstraust barnanna okkar, börnin okkar hætta að hugsa stanslaust um það hvað öðrum finnst og sækjast ekki jafnmikið eftir utanaðkomandi viðurkenningu. Þau verða viljugri til þess að prufa sig áfram og óhrædd við það að mistakast. Þau fá að eiga litlu sigrana sína sjálf og upplifa það að vera stolt af sjálfum sér á sínum eigin forsendum.

 

-Kristín Mariella Friðjónsdóttir

Greinin birtist fyrst á síðunni Respectful Mom og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Davíð Snorri mun starfa með Arnari – Aðeins ein breyting gerð á teyminu

Davíð Snorri mun starfa með Arnari – Aðeins ein breyting gerð á teyminu
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd
Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Valur Páll lýsir lygilegri uppákomu í fluginu til Króatíu – „Svo allt í einu kemur þessi spurning“

Valur Páll lýsir lygilegri uppákomu í fluginu til Króatíu – „Svo allt í einu kemur þessi spurning“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Útgefandi varpar sprengju um Geirfinnsmálið – Lögreglumenn hafi afvegaleitt rannsóknina af persónulegum ástæðum

Útgefandi varpar sprengju um Geirfinnsmálið – Lögreglumenn hafi afvegaleitt rannsóknina af persónulegum ástæðum
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Segir íslenskt sendiráð hafa valdið sér tjóni

Segir íslenskt sendiráð hafa valdið sér tjóni
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.