Hjónin Bryndís Ásmundsdóttir og Sigurður Eggertsson vildu gera eitthvað öðruvísi og óhefðbundið á brúðkaupsdaginn sinn. Í stað þess að ganga upp að altarinu við hinn hefðbundna brúðarmars þá gekk Bryndís við frægt kvikmyndastef. Þetta vakti gríðarlega mikla lukku brúðkaupsgesta.
Eins og heyra má í myndbandinu er þetta kvikmyndastefið fræga úr myndinni Jaws, sem verður að teljast mjög óhefðbundið val fyrir brúðkaup. Bleikt hafði ótrúlega gaman af myndbandinu frá brúðkaupinu og hafði samband við nýgiftu hjónin til að forvitnast um lagavalið.
„Mér fannst þetta mjög fyndið. Ég reyni að hafa sem flesta hluti fyndna í kringum mig á hverjum degi. Fyrir utan það líka hvað þetta er töff lag, þetta var valið besta kvikmyndastef sögunnar. Svo líka er þetta að eitthvað er að nálgast, eins og í myndinni, eitthvað óþekkt,“
sagði brúguminn Sigurður í samtali við Bleikt.
„Við höfum bæði ofnæmi fyrir væmni. Okkur langaði að gera eitthvað öðruvísi og þetta var einnig þægilegra fyrir hana. Í staðinn fyrir eitthvað giftingarlag og allir að horfa á hana, þá var léttara andrúmsloft þegar hún var að ganga inn.“