Chrissy Corbitt frá Bandaríkjunum fæddi stúlkubarn sem var rúmlega sex kíló, sem samsvarar 24 mörkum. Móðir stúlkunnar segir að hún sé svo stór að hún líti út fyrir að vera smábarn en ekki ungbarn. Þegar maður sér mynd af Chrissy þegar hún var ólétt þá gefur það manni ansi góða vísbendingu um að hún myndi fæða barn í stærra laginu. Stúlkubarnið fékk nafnið Carleigh.
Carleigh kom heilbrigð í heiminn viku fyrir settan dag. Hún var tekin með keisaraskurði.
„Þegar læknirinn var að tosa hana úr mér þá heyrði ég bara hvað þau voru öll hlægjandi og spennt í herberginu,“
sagði Chrissy við ABC. „Þegar þau sögðu mér að hún væri 24 merkur þá trúði ég því ekki. Það leit út eins og þau hefðu tekið smábarn úr maganum á mér. Hún er svo stór.“
„Kinnarnar hennar voru svo stórar og hún var svo feit. Hún var guðdómleg að sjálfsögðu!“ sagði Chrissy.
Carleigh er næstum tvöfalt þyngri en nýfædd börn eru að meðaltali. „Hún er eins og sex mánaða gamalt barn,“ sagði Larry Corbitt, eiginmaður Chrissy og faðir Carleigh.
„Við höfðum samband við Pampers og Huggies til að hjálpa okkur því allt sem við vorum með tilbúið virkaði ekki. Ekkert af því passar. Fötin sem hún notaði í gær eru fyrir níu mánaða gamalt barn. Hún er risastór.“