Það er sko sannkölluð þjóðaríþrótt Júrónörda að spá í tölfræði. Reyndar er tölfræði lygilega skemmtileg og mjög margir sem hafa áhuga á henni (ekki bara Júrónördar…).
Allir hafa heyrt um „dauðasætið“ sem á að vera annað lag á svið og að það sé dæmt til að gleymast í Júróvisjón o.s.frv. En hefur þetta verið skoðað ofan í kjölinn?
Við settum upp spæjarahattinn og beindum stækkunargleraugunum að einmitt þessu, röð laga á svið og hver áhrif hennar geta verið fyrir framganginn. Reyndar tókum við bara saman að þessu sinni hvort röðin hefði áhrif á það að lögin kæmust upp úr undanriðlunum í aðalkeppnina.
Það sem var undir var hversu miklu máli það skiptir að vera fyrsta lag á svið, annað lag, næst síðasta og síðasta lag á svið (upphaf og endir keppninnar) og til samanburðar tókum við líka miðjuatriðið. Undankeppnafyrirkomulagið eins og það er í dag, með tveimur undankeppnum og aðalkeppni, var fyrst kynnt árið 2008 svo að greiningin nær frá því ári til úrslitanna 2015.
Hérna sést með einföldum hætti hvernig því lagi hefur gengið sem er 1. á svið, 2. á svið, í miðju, næstsíðast og síðast (X þýðir áfram í aðalkeppnina og 0 þýðir að viðkomandi situr eftir með sárt ennið).
Af þessu má sjá að á þessum sjö árum 2008-2014 hafa lögin sem stíga næstsíðust og síðust á svið í undankeppnunum langoftast komist áfram í aðalkeppnina. Í raun eru það bara heil fjögur framlög sem ekki hafa komist áfram af 28 alls! Það er nokkuð afgerandi tölfræði og því má segja að líkurnar á að komast áfram með þetta sviðsnúmer séu nokkuð háar.
Að stíga á svið í miðjunni þýðir ekkert endilega að viðkomandi komist áfram en 8 af 14 hafa komist áfram (6 setið eftir) sem er nokkurn veginn 50/50. Það sama má segja um annað lag á svið og því er líklegt að „dauðasætið“ nr. 2 á svið eigi kannski fremur við um framgang í aðalkeppninni.
Lökustu niðurstöðu í þessari greiningu er að finna í fyrsta framlagi á svið en þar hafa 6 af 14 komist áfram, rétt innan við helmingur framlaga. Það er kannski ekki mjög afgerandi en samt… maður getur efast. Gleymum samt ekki að Eurobandið steig fyrst á svið í undankeppninni í Belgrad 2008 með rífandi góðum árangri – svo það þarf nú ekkert að vera slæmt. Að því ógleymdu að lögin eru gífurlega misjöfn að gæðum 🙂
Svala okkar verður 13. framlagið af 18 lögum á fyrra undankvöldinu og samkvæmt tölfræðinni ætti það að vera sæmilega hagstætt. Það er þó ekki allt tölfræði og við treystum á sjarma og reynslu íslenska hópsins til að drífa okkur áfram í aðalkeppnina – ÁFRAM ÍSLAND!