fbpx
Mánudagur 23.desember 2024

Páll Óskar fagnar: „Ekki ein sekúnda sem ég mundi breyta“

Ritstjórn Bleikt
Fimmtudaginn 4. maí 2017 16:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru liðin hvorki meira né minna en 20 ár síðan Páll Óskar Hjálmtýsson flutti lagið Minn hinsti dans í aðalkeppni Eurovision í Dublin. Trúið þið þessu?

Við hringdum að sjálfsögðu í Palla í tilefni dagsins og spurðum hvað honum væri efst í huga á þessum tímamótum.

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hversu þakklátur ég er að vera hér 20 árum síðar ennþá að búa til popptónlist – það er ekki sjálfgefið að vera ennþá til svæðis.“

Það vildi svo skemmtilega til að í gær skaust nýjasti smellur Palla, lagið Einn dans, í toppsæti vinsældalista. „Hinsti dansinn fékk eiginlega Eina dansinn í afmælisgjöf!“ segir Palli.

Okkur á Bleikt finnst Minn hinsti dans eldast hreint frábærlega og Palli sjálfur er því sammála. „Mér finnst þetta ennþá flott og þegar ég horfi á myndbandið úr keppninni er ekki ein sekúnda sem ég mundi breyta.“

Þegar Hinsti dansinn var sendur til Dublin hafði Rúv ekki efni á að halda undankeppni Eurovision á Íslandi.

„Það var hringt í mig í staðinn og ég beðinn um að gera lag. Ég hafði sólarhring til að hugsa mig um. Þegar ég svaraði þessu játandi krafðist ég þess að Rúv mundi gefa mér algjört listrænt frelsi og ekki skipta sér af neinu varðandi lagið. Rúv samþykkti þetta og stóð með mér alla leið. Kannski var það listræna frelsið sem gerir það að verkum að lagið virkar ennþá í dag.“

Atriðið sjálft þótti ansi ögrandi og óvenjulegt.

„Það varð að vera þannig,“ segir Palli. „Árið 1997 var keppnin orðin steingeld og var í raun að horfast í augu við sinn eigin dauðdaga. Áhorfið hafði hrunið og rúmlega 20 lönd kepptu í keppninni. Áhorfendur höfðu einfaldlega ekki lengur áhuga á keppninni, því fólk sat ítrekað fyrir framan sjónvarpið og horfði á sín uppáhaldslög tapa eða enda mjög neðarlega vegna ósýnilegra dómnefnda sem höfðu öll völd.“

Já í þá daga var áhorfandinn algjörlega áhrifalaus, og að sögn Palla fyrirleit tónlistarbransinn keppnina. „Keppnin var að breytast í skúffulagakeppni popplagahöfunda úr B-riðli. Einhver þurfti að gera eitthvað!“

Árið 1996 hafði Palli setið í íslensku dómnefndinni ásamt Eurovison-Reyni félaga sínum.

„Þar upplifðum við hversu auðvelt það var fyrir áhrifamiklar dívur að hafa áhrif á hina í dómnefndinni og krefjast þess að eitthvað ákveðið land fengi 12 stig.“

Árið 1997 var í fyrsta sinn gerð tilraun með símakosningu áhorfenda í Eurovision keppninni, og sex þjóðir tóku þátt í þeirri kosningu. Hin löndin héldu sig við gamla dómnefndakerfið.

„Þegar ég keppti hefði símakosningin skilað mér í 6. sæti, en í raun lenti ég í því 20. Þetta var allt of stórt bil og það var út af þessu gati sem ákveðið var að skipta alveg yfir í símakosningu og hafa dómnefnd í hverju landi á varamannabekk. Það sýndi sig svo að árið eftir vann transkonan Dana International keppnina.“

Palli getur sannarlega horft stoltur um öxl. Hann getur þess í lok samtals við blaðakonuna að hann hafi ef til vill haft snert af spádómsgáfu þegar hann söng lagið Minn hinsti dans fyrir 20 árum síðan.

„Það sem ég söng um í laginu var orðinn íslenskur veruleiki 10 árum síðar. Manstu hvernig ástandið var orðið 2007? London, París, Róm, demantar og kampavín í matinn – öll hnignunin og glamúrinn. Svona var þetta hreinlega orðið – og eins og í laginu iðrast þeir aldrei neins.“

Laugardagskvöldið 13. maí, þegar sjálf aðalkeppni Eurovision fer fram, verður að sjálfsögðu Pallaball á Spot. Palli ætlar þar að endurflytja atriðið fræga við Minn hinsti dans. Hér getið þið nælt ykkur í miða!

Í ljósi þessa þykir okkur full ástæða til að birta texta lagsins hér!

Minn hinsti dans

London, París, Róm – urðu orðin tóm
Gekk þann gyllta breiða, blindaður af ást
Falskir kunningjar, snerust um mig einan
Fékk mér kavíar, núna er allt um seinan

Því ég stíg minn hinsta dans
Og ég kveð mitt líf með glans
En ég iðrast aldrei neins, iðrast aldrei

Kristals kampavín, perlur postulín
Demantar í matinn, ást í eftirrétt
Ef ég elsk’ í dag, blöðin birta á morgun
Fæ mér freyðibað, drekki mínum sorgum

Og ég stíg minn hinsta dans
Og þannig kveð mitt líf með glans
En samt iðrast ég aldrei neins, iðrast aldrei

Allt sem ég fæ í dag, farið burt á morgun

Svo ég stíg minn hinsta dans
Og þannig kveð mitt líf með glans
En samt iðrast ég aldrei neins, iðrast aldrei

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Tveir til viðbótar settir á sölulista hjá United

Tveir til viðbótar settir á sölulista hjá United

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.