13 Reasons Why, þátturinn sem er á allra vörum þessa dagana. Hann lýsir því hversu erfitt það er fyrir sálina að lenda í einelti af einhverju tagi. Ég horfði á hann og grét, ég horfði á hann og hugsaði hvað ég væri heppin. Heppin að hafa ekki endað líf mitt þrátt fyrir að sálin mín hafi verið brotin, ekki einu sinni heldur mörgum sinnum.
Ég hef aldrei sagt nokkrum manni frá því hversu slæmum hlutum ég í raun lenti í sem barn og unglingur. Afhverju? Nú afþví ég skammaðist mín. Þetta var jú allt mér að kenna?
Ef einhver dreifir mynd af þér er það ekki þér að kenna. Þótt þú takir mynd af þér gefur það engum rétt á að eigna sér myndina og/eða dreifa henni. Það er ekki þér að kenna þótt myndinni sé dreift. Þú átt að geta tekið mynd af öllum líkamspörtum þínum sem þig langar að taka mynd af. Þetta er þinn líkami.
Ég var það „óheppin” að lenda í því að mynd var dreift af mér. Á minna en sólarhring höfðu allir séð myndina. Hversu margir réttu mér hjálparhönd eða sýndu mér stuðning? Enginn. Það var jú mér að kenna að hafa tekið mynd að sjálfri mér fáklæddri og mér að kenna að einhver hafi séð hana í tölvunni minni, tekið mynd af henni með símanum sínum og dreift áfram… Eða þannig upplifði ég það… Allir hlógu og gerðu grín. Mig langaði að hverfa.
Þetta er brotabrot af því ömurlega og ógeðslega sem ég lenti í sem barn og unglingur. Ég skildi ekki afhverju. Afhverju enginn vildi mig sem vin. Afhverju miðum var dreift í tíma sem lýstu því hversu ömurleg og ljót manneskja ég væri. Afhverju ég mátti ekki fara í ákveðna sturtu eftir sundtíma. Afhverju ég mátti ekki vera samferða hinum á leiðinni upp í skóla. Afhverju ég mátti ekki róla í frímínútum. Afhverju ég mátti ekki kaupa mér ákveðnar gallabuxur. Afhverju…
Ég hlaut að vera svona leiðinleg og skrítin. Þannig ég varð að breyta sjálfri mér. Ég varð að byrja að drekka og reykja, þá kannski verð ég kúl og þá kannski vill einhver vera vinur minn. Ég verð að stunda kynlíf því jú það er staðfesting á því að ég er ekki ógeðsleg og ljót og þá kannski verð ég samþykkt inn í hópinn.
Í stuttu máli, nei. Það virkaði ekki.
10 árum, 100000000 tárum, 1 sjálfsmorðstilraun, 1 nauðgun og 1 ofbeldissambandi síðar er ég loksins orðin ég aftur. Sálin er ekki alveg orðin heil, en nálgast þann stað hægt og rólega. Ég er ekki fullkomin, en hver er það?
Það eru ekki allir vondir í heiminum. Forðumst þá sem koma illa fram við okkur. Höldum fast í þá sem sýna okkur ást og umhyggju og ekki taka neinu sem sjálfsögðu lífinu. Það er alltof stutt.
Í dag horfi ég á litla fullkomna einstaklinginn sem ég bjó til og þakka guði fyrir að hafa ekki tekist að enda líf mitt.
Höfundur greinar óskar nafnleyndar