Hvað gerist þegar 19 ára menntaskólastrákur er ásakaður um að nauðga stúlku? Hvernig áhrif hefur nauðgun á stúlkuna og fjölskyldu hennar, og hvernig áhrif hefur ásökunin á strákinn og hans nánustu. Þessum spurningum, ásamt fleirum, veltir María Reyndal upp í nýju útvarpsleikriti, Mannasiðir, sem verður frumflutt á Rás 1 á laugardaginn kl. 14. Í leikritinu er þetta einmitt umfjöllunarefnið. Við fáum að fylgjast með lifi stráksins sem er ásakaður um nauðgun, og stúlkunnar líka. Rödd hennar fáum við að heyra gegnum útvarpsviðtal sem hún fer í, og hefur áhrif á framvindu mála.
„Mig langaði að kafa ofan í þessi mál og varpa ljósi á hversu flókin og erfið þau eru fyrir aðstandendur beggja aðila. Í leikritinu er sterkur fókus á fjölskyldur – hliðina sem við heyrum sjaldnast um. Það er til dæmis svo mikið tabú að vera meintur nauðgari eða tengjast honum. Við sem horfum á mál sem þessi utan frá sjáum allt annað fyrir okkur en raunveruleikinn er. Við erum langt frá því að gangast við því hversu almennir þessir glæpir eru og hverjir fremja þá.“
María vann verkið meðal annars út frá viðtölum við fjölskyldur gerenda og meintra gerenda, og þolendur nauðgana. „Ég talaði við nokkrar stúlkur og byggi rödd stelpunnar í Mannasiðum á þeim.“
Leikritarar geta eflaust fundið sér eitthvað auðveldara að fjalla um. Ég spyr Maríu hver kveikjan hafi verið.
„Kannski bara staða þessara mála í okkar samfélagi. Við náum ekki utan um þetta vandamál og erum búin að reyna ýmsar leiðir án þess að finna lausnina. Í flestum málum er dómskerfið ekki að virka – mál eru endalaust látin niður falla því orð stendur gegn orði. Þannig fæst engin úrlausn og þetta hangir á fólki allt lífið. Krafan um að þetta breytist er að verða sterkari og sterkari. Á Víkingaöld drápum við fólk og það þótti allt í lagi – svo hætti okkur að finnast það í lagi og hættum að líða manndráp á sem samfélag. Eitthvað svipað þarf kannski að gerast – samfélagsleg viðhorfsbreyting.“
Að leikritinu stendur sami hópur og vann leikritið Sóleyju Rós sem sýnt var í Tjarnarbíói í vetur. Helstu hlutverk eru í höndum Odds Júlíussonar, Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur, Sólveigar Guðmundsdóttur, Sveins Ólafs Gunnarssonar og Snæfríðar Ingvarsdóttur.
María og aðrir aðstandendur leikritsins ætla að standa fyrir samhlustunarpartýi í Iðnó á laugardaginn þegar leikritið verður frumflutt. Aðgangur er ókeypis og húsið stendur öllum opið. Leikritið byrjar klukkan 14 en húsið opnar kl. 13.
„Það er kannski óvenjulegt að koma saman og hlusta á leikhús, en ég veit alla vega hvernig ég er – stundum langar mig að hlusta en geri það ekki þvi ég er ein. Ég mundi miklu frekar mæta og hlusta með öðrum. Það er svo mikil afþreying í boði, mikið áreiti – svo þetta verður valkostur fyrir þá sem vilja rólega stund með öðrum. Það er til dæmis prýðishugmynd að taka með sér prjóna.“
Eftir samhlustunina í Iðnó mun Diljá Ámundadóttir stýra umræðum um leikritið og umfjöllunarefni þess.
Hér má nálgast upplýsingar um viðburðinn.