fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Sögustund um Júróvisjón – Kannast lesendur við hina rússnesku Intervision keppni?

Ritstjórn Bleikt
Föstudaginn 12. maí 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú, þegar Júróvisjón-keppnin er haldin í Úkraínu og við höfum ekki farið varhluta af hinu kalda andrúmslofti sem ríkir milli heimamanna og gömlu herraþjóðarinnar Rússa (sjá hér), finnst okkur á Allt um Júróvisjón tilvalið að grafa aðeins í sögubókunum og rifja upp tímann þegar járntjaldið var enn uppi. Þá reyndu Sovétmenn að endurskapa Júróvisjón sín megin af þeirri ástæðu að Sovétríkin voru ekki meðlimur í sjónvarpssambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Kommúnistaáróðursmaskínan notaði því tækifærið og sagði þegnunum að allt sem vestrið gerði, gæti kommúnisminn gert betur. Útkoman varð Intervision Song Contest.

Aldrei heyrt um hana? Ekki skrýtið, því að hún var einungis haldin fjórum sinnum. Fimm sinnum ef við teljum endurlífgunina með árið 2008. Nú eru langflestar þjóðir, sem áður voru hinum megin við járntjaldið, þátttakendur í Júróvisjón og hafa jafnvel náð góðum árangri þar.

FORSAGAN

Intervision-söngvakeppnin var haldin á árunum 1977 til 1980 af sjónvarpssambandi austurblokkarinnar Intervision. Hún var haldin í strandbænum Sopot í Póllandi í Skógaróperunni, sem tekur 4.400 manns í sæti.

Skógaróperan í Sopot (Forest Opera)

Þar hafði frá árinu 1961 verið haldin falleg lagakeppni (Sopot International Song Festival) sem miðaðist við að fá alþjóðlega flytjendur hvaðanæva úr heiminum til að koma til Póllands og flytja falleg pólsk sönglög. Í Sopot-keppnina komu m.a. flytjendur frá Kúbu, Dóminíkanska lýðveldinu, Mongólíu, Nýja-Sjálandi, Nígeríu, Perú og Suður-Afríku.

Stofnandi Sopot-keppninnar var hinn þekkti píanóleikari Władysław Szpilman (sem Polanski gerði myndina The Pianist um árið 2002). Ólíkt Júróvisjón, var oft skipt um vinningsformúlu í Sopot-keppninni og t.d. var tvískipt keppni árið 1980 þegar fjórða Intervision-keppnin var haldin; annars vegar meðal sjónvarpsstöðva og hins vegar plötufyrirtækja.

KEPPENDUR OG SIGURVEGARAR Í INTERVISION 1977-1980

Alls tóku 28 þjóðir þátt í þeim fjórum Intervision-keppnum sem haldnar voru í lok áttunda áratugarins og blábyrjun þess níunda. Af þeim eru 18 Evrópuþjóðir sem í dag taka þátt í Júróvisjón – en auk þeirra þjóðir eins og Kanada, Kúba, Marokkó og Tajikistan, Kasakstan o.fl. fyrrum Sovétþjóðir, sem ekki eru hluti af EBU.

Lögin sem flutt voru í keppnunum voru (eins og myndböndin hér fyrir neðan bera með sér) undir sterkum austantjaldsáhrifum, en áttu í raun að líkjast vestrænni popptónlist – það var nálgunin hjá hinum háu herrum kommúnismans. Segja mætti að það hafi verið popptónlist sem var alltaf í moll – því að sovéski bragurinn hélst út í gegn.

Árið 1977 var fyrsta keppnin haldin 24.-27. ágúst undir merkjum Intervision og keppendur voru fjórtán talsins. Tékkneska söngkonan Helena Vondráčková bar þá sigur úr býtum en hún flutti tvö lög í keppninni. Lagið „Litla málaða krukkan“ tryggði henni sigur:

Árið 1978 sigruðu Sovétríkin með fulltrúa sínum, Öllu Pugachevu, sem söng lagið Vsyo Mogut Koroli, „Konungar geta gert hvað sem er“:

Árið 1979 sigraði hinn pólski Czeslaw Niemen með lagið Nim Przyjdzie Wiosna eða „Vorið kemur“:

Síðast en ekki síst ber að nefna keppanda Finnlands sem bar sigur úr býtum í Intervision-keppninni árið 1980, Marion Rung. Finnar eiga, eins og við vitum, fremur dapurlega sögu í Júróvisjón (þar til Lordi kom til sögunnar) og því var þessi sigur þeirra í „hinni“ söngvakeppninni mjög dýrmætur og Marion var mikið fagnað í heimalandinu. Á þessum tíma var Finnland einnig eina þjóðin sem tók þátt í báðum keppnum og hafði því afar sérstaka stöðu, sem kommúnískir ráðamenn voru ekki að öllu leyti sáttir við. Marion flutti lagið „Hvar er ástin“ – sem hefði vel átt heima í Júróvisjón þess tíma 🙂

HVAÐ VARÐ SVO UM INTERVISION?

Strax árið 1981 var Intervision í Sopot frestað vegna hræringa í verkalýðsmálum í Póllandi. Upptök þessarar nýju baráttu voru steinsnar frá Sopot og mótmælin voru tímasett þannig að hin alþjóðlega umfjöllun sem Intervision-keppnin átti von á myndi enn fremur varpa ljósi á stöðu verkalýðisins um leið. Einn hinna pólsku söngvara sem átti að troða upp á Intervision 1981 hafði að sögn í huga að flytja lagið „Húsið okkar brennur“ – það segir ýmislegt um ástand mála! Stuttu seinna voru sett herlög í landinu og smám saman fór að molna undan sovétkommúnismanum með falli Berlínarmúrsins um 8 árum seinna. Sopot-söngvakeppnin sneri þó aftur seinna undir upprunalegum formerkjum og nýtur enn í dag nokkurra vinsælda.

VAR INTERVISION VINSÆL?

Þýðing þessarar skammlífu söngvakeppni var ekki síst sú fyrir þjóðir austan járntjaldsins að fá örlitla innsýn í tónlist úr hinum vestræna heimi. Ástæðan var ekki sú að lögin sem kepptu hafi verið vestræn nema að litlu leyti, heldur ekki síst að skemmtiatriðin í hléum voru oftar en ekki í höndum heimsþekktra listamanna sem fólk vissi af en heyrði aldrei neitt af í útvarpi eða sjónvarpi kommúnismans. Dæmi um þetta eru Boney-M, Gloria Gaynor og Petula Clark sem tróðu upp í Intervision. Þetta er e.t.v. skýring á gríðarlegum vinsældum Boney-M í austur-Evrópu á árum áður.

INTERVISION 2.0 TIL HÖFUÐS „ÚRKYNJAÐRI EVRÓPU“

Eftir sigur Mariju Serifovic árið 2007 með Verku Serduchku í öðru sæti í Júróvisjón töldu yfirvöld í Rússlandi að nú yrði að bregðast við því sem hlaut að vera „afbrigðileg þróun í tónlistarsköpun“ í þessari tónlistarkeppni sem þjóðir fyrrum austantjaldslanda voru flestar farnar að taka þátt í (og ganga ágætlega). Því var lagt til að endurreisa Intervision á nýjan leik. Nýtt skipulag var tekið í gagnið og keppnin var haldin í rússnesku borginni Sochi, þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir árið 2014. Samband sjónvarpsstöðva í fyrrum Sovétríkjunum og Kína tóku þátt og alls voru þátttökuþjóðir 11 talsins. Keppnin var á fjórum kvöldum; á hinu fyrsta var keppt með frumfluttum lögum, á öðru kvöldi með smellum frá 20. öldinni, á því þriðja með alþjóðlegu lagi fluttu á þjóðtungu (sem best hentaði ímynd hvers keppanda og á því fjórða áttu flytjendur að flytja eigin smelli í Grand Final og þá voru verðlaun veitt fyrir heildarkeppni hinna fjögurra kvölda.

Sigurvegarinn árið 2008 var Tahmina Niyazova sem flutti í Grand Final Mariuh Carey-slagarann Hero á nokkuð hræðilegri ensku en frumflutti einnig þetta hér:

Það varð þó úr að aðeins þessi eina keppni var haldin með breyttu sniði því að, obbosí, Rússar tóku sig til og unnu Júróvisjón 2008 og héldu keppnina 2009 í Moskvu eins og frægt er orðið.

Ekki var því þörf fyrir Intervision að sinni. Sú þörf kom ekki aftur fyrr en 2014 þegar Conchitan okkar vann í Kaupmannahöfn og Júróvisjón, sem Rússar höfðu haldið með miklum bravúr og ærnum tilkostnaði fimm árum áður, varð aftur „ímynd hinnar úrkynjuðu vestrænu Evrópu“. Til stóð að endur-endurvekja Intervision í október 2014 en því var frestað um óákveðinn tíma og enn er ekkert útlit fyrir að Intervision, sem átti sannarlega að kollvarpa Júróvisjón, sé líkleg til að gera neinar gloríur á ný.

Heimildir:

BBC
Wikipedia

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.