„Live For Now Moments Anthem“ auglýsing Pepsi olli miklu fjaðrafoki í gær. Kendall Jenner, sem er í aðalhlutverki, sést vera í miðri myndatöku á meðan mótmæli eiga sér stað og ákveður að slást í hóp með mótmælendum. Hún fer til lögreglumanns með Pepsi dós sem hún býður honum sem nokkurs konar friðarfórn. Lögreglumaðurinn tekur glaður við dósinni og fær sér sopa, og í kjölfarið fagna allir í kring.
Sjá einnig: Auglýsing Pepsi með Kendall Jenner vekur hörð viðbrögð
Auglýsingin vakti hörð viðbrögð og fannst mörgum auglýsingin ónærgætin vegna pólitísks andrúmslofts í Bandaríkjunum í dag. Mikil umræða skapaðist á samfélagsmiðlum og hefur gosdrykkjaframleiðandinn tekið auglýsinguna úr birtingu í kjölfarið. Pepsi sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem stóð meðal annars:
„Pepsi var að reyna að senda alheimssskilaboð um samstöðu, frið og skilning. Við hittum greinilega ekki í mark og biðjumst afsökunar. Við ætluðum ekki að varpa ljósi á alvarleg vandamál. Við erum að fjarlæga efnið og hætta við frekari birtingu á því. Við biðjumst einnig afsökunar að hafa sett Kendall Jenner í þessa stöðu.“
— Pepsi™ (@pepsi) April 5, 2017